Ferðasaga garðyrkjunema til Danmerkur

Nemendur í Garðyrkjuskólanum fóru í fjögurra daga námsferð í Danmerkur í lok ágústmánaðar að kynna sér ræktunaraðferðir þeirra. Hér fyrir neðan er hægt að lesa stórskemmtilega ferðasögu þeirra sem Óli Finnsson ritar fyrir hönd nemenda.

 

Þann 22. ágúst síðastliðinn lagði frækinn hópur garðyrkjuskólanema í ferðalag til Danaveldis. Markmiðið: að stela öllum þeirra leyndarmálum í ræktunartækni.

Við komuna til Kaupmannahafnar lá leiðin beint í grasagarðinn til að upplifa alvöru sumar og sleikja döggina af grasinu.  Flugið okkar var um miðja nótt og margir úr hópnum því svefnvana.  Vart finnst betri staður til að halla sér en innan um há og falleg tré og margbreytilegan lággróður.

Þrátt fyrir að hápunktur sumarsins hafi verið liðinn þar ytra var samt margt fallegt að sjá og fóru margir í gönguferð um garðinn á meðan aðrir sváfu eða pössuðu farangurinn.

Seinna um daginn tókum við lest til Óðinsvéa þar sem Guðrún Helga og Ágústa, kennarar tóku á móti okkur og leiddu okkur í ævintýralega skoðunarferð um bæinn, fyrrum heimahaga Guðrúnar. Þar lá blómailmur í loftinu sem mátti bragða á og hefur án efa verið innblástur þjóðarskálds Dana á sínum tíma. Að lokinni góðri máltíð lá leiðin heim á hótel til að safna kröftum fyrir átök næstu daga.

Sunnudagurinn rann upp og var stefnan sett á Egeskov höllina rétt sunnan Óðinsvéa. Garðurinn þar er sannkölluð ævintýraveröld, fjölærar jurtir, ævaforntré, klippt limgerði, ætigarður, ilmandi garður, völundarhús og hlaupabrautir hátt í trjákrónunum ásamt ógrynni af söfnum, enda greifinn sem þar býr mikill áhugamaður um fornbíla og aðra gamla hluti. Dagurinn leið friðsamlega og yndislega í hlýjunni og veðrið hefði ekki hefði getað verið betra enda heppnaðist lautarferðin okkar í enska hluta garðsins frábærlega.

Mánudagurinn byrjaði á heimsókn í Kold Collage garðyrkjuskólann í Óðinsvéum, þar sem barnungir nemendur kynntu fyrir okkur starfsemi skólans af mikilli röggsemd auk þess sem farið var yfir möguleika á framhaldsnámi.  Restin af mánudeginum auk þriðjudags og miðvikudags fóru í kynnisferðir í garðyrkjufyrirtæki jafnt í græna sem gráa geiranum.  Þar var eitthvað fyrir alla.  Við heimsóttum trjáframleiðanda, lífræna bændur, skrúðgarðyrkjufyrirtæki og jarðarberjaframleiðendur svo fátt eitt sé nefnt.  Við fengum að kynnast starfsemi fjölbreytilegra fyrirtækja, sum hver með starfsemi á fleiri tugum hektara með fjölda starfsfólks, önnur minni í sniðum en þó síst minna áhugaverð.  Öll áttu þau það sameiginlegt að vera vel skipulögð bæði faglega og rekstrarlega.  Við kynntumst einnig frumlegum lausnum sem meðlimir hópsins eiga eflaust eftir að tileinka sér í framtíðar áformum.

Fimmtudaginn 27. ágúst lagði svo vaskur hópur skrúðgarðyrkjunema á skrúðgarðyrkju sýninguna "Have & Landskab". Þar mátti sjá alls kyns manndómsskapandi vinnuvélar, tilbúin limgerði, vélmenni og margt margt fleira. 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image