Evrópskt netverk um stafræna nýsköpun og gagnatækni fyrir búfjárrækt sem byggir á úthagabeit

Evrópskt netverk um stafræna nýsköpun og gagnatækni fyrir búfjárrækt sem byggir á úthagabeit

Nú í síðustu viku júní 2024 var tilkynnt um úthlutun úr Horizon Europe rannsókna- og nýsköpunaráætlun Evrópusambandsins, fyrir tiltekna verkefnaflokka. Eitt verkefnanna sem hlaut stuðning ber á ensku stytta heitið DIGI-RANGELAND en meira lýsandi heiti á íslensku er það sem er í titli þessarar tilkynningar. Stofnunin IDELE í Frakklandi leiðir verkefnið en í kjarnahóp sem mótaði verkefnið voru einnig stofnanirnar SRUC í Skotlandi, NIBIO í Noregi og Landbúnaðarháskóli Íslands. Þáttökuaðilar í verkefninu koma einnig frá Rúmeníu, Grikklandi, Spáni, Króatíu, Slóveníu, Búlgaríu og Sviss.

Búfjárrækt sem byggir að meira eða minna leyti á úthagabeit er mikilvæg í Evrópu. Það er bæði vegna matvælaframleiðslu og ýmiss konar þjónustu við vistkerfi, svo sem að halda landi opnu með beit til að draga úr líkum á gróðureldum og stuðla að fjölbreytni búsvæða. Þessa tegund landbúnaðar er á margan hátt flóknara að tæknivæða heldur en þá framleiðslu sem fer fram að mestu innandyra eða á tiltölulega einsleitu landi.  Ýmis framþróun hefur þó átt sér stað sem skapar tækifæri til vinnuhagræðingar við ýmsa meðhöndlun búfjár á beit og þann tíma sem það er á húsi, og varðandi beitarstýringu, smalamennskur og fleira.  Nokkur lykilorð varðandi slíka tækni eru rafræn eyrnamerki, GPS-staðsetningarbúnaður, rafrænar (ósýnilegar) girðingar, drónar, raggangar og flokkunarhlið, búnaður til að stýra fóðrun, hugbúnaðarkerfi vegna skýrsluhalds af ýmsu tagi.

DIGI-RANGELAND netverkið gengur út á að búa til smærri og stærri tengslanet bænda og annarra landnotenda sem standa frammi fyrir ýmsum áskorunum varðandi landnotkun, bæði á héraðs- lands- og Evrópuvísu. Þörf fyrir tæknilausnir verður greind, skoðað hvaða tæknilausnir eru í boði og hvað hentar á mismunandi stöðum.  Lögð er áhersla á að koma á nánu sambandi milli þeirra sem eru að þróa lausnirnar og væntanlegra notenda þeirra. Í þessu netverki felast því margvísleg tækifæri fyrir íslenska bændur, ráðgjafa þeirra, vísindafólk og fleiri tengda aðila.

Verkefnið hefst í ársbyrjun 2025 og stendur yfir í 4 ár. Heildarstuðningur við verkefnið er 3 milljónir evra eða um 450 milljónir íslenskra króna, þar af mun 14,25 % eða rúmlega 60 milljónir íslenskra króna fara í gegnum Landbúnaðarháskóla Íslands. Jóhannes Sveinbjörnsson leiðir verkefnið fyrir hönd LbhÍ.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image