Esther Björg ver meistararitgerð sína Strandir, eyðistrandir. Um áhrif sálfélagslegrar skipulagsgerðar á tækifæri fólks til búsetu í Árneshreppi á Ströndum

Esther Björg Andreasen - Meistaravörn í skipulagsfræði

Esther Björg Andreasen ver meistararitgerð sína í skipulagsfræði Strandir, eyðistrandir. Um áhrif sálfélagslegrar skipulagsgerðar á tækifæri fólks til búsetu í Árneshreppi á Ströndum við deild Skipulags & Hönnunar hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Á ensku nefnist ritgerðin Coastal areas, deserted coastal areas.

Leiðbeinendur Estherar voru Páll Jakob Líndal doktor í umhverfissálfræði og Óskar Örn Gunnarsson Skipulagsfræðingur er aðstoðarleiðbeinandi. Prófdómari er Bjarni Reynarsson doktor í skipulagsfræðum

Meistaravörnin fer fram þriðjudaginn 31. maí 2022 kl. 12:00 við Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík, Árleyni 22.

Vörninni verður einnig streymt í gegnum Zoom fjarfundabúnað og öllum áhugasömum er velkomið að fylgjast með henni þannig. Við biðjum þá sem vilja tengja sig vinsamlegast að gera það fyrir kl. 11:50. Jafnframt biðjum við alla sem tengjast í gegnum fjarfundabúnað að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum „úr sal“ í lok varnarinnar. Hlekkur á vörnina hér

Ágrip

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag Íslands og það nyrsta á norðanverðum Vestfjörðum. Landsvæðið er bæði víðfeðmt og afskekkt. Í sveitarfélaginu er tilkomumikið landslag með hafið  á aðra hönd og fjalllendi og heiðar á hina. Þar býr fólk einangrað því langt er á milli bæja, aðeins ein verslun er í sveitarfélaginu en aðra þjónustu þarf að sækja til Hólmavíkur. Skólahald hefur verið aflagt í hreppnum.

Markmið þessa rannsóknarverkefnis er að varpa ljósi á með hvaða hætti sálfélagslegir þættir á borð við staðarvensl og sálfræðilega endurheimt fléttast inn í ákvörðun fólks um að búa í Árneshreppi. Mikilvægur liður í verkefninu er að sýna fram á hvernig megi brúa bilið milli sálfélagslegra þátta og skipulagsgerðar í þeirri viðleitni að styrkja áframhaldandi búskap í sveitarfélaginu. Ákveðið var að beita blandaðri rannsóknaraðferð (e. mixed methods) við framkvæmd rannsóknarinnar til að öðlast dýpri skilning á viðfangsefninu. Í þeim tilgangi að fá sem breiðasta sýn á staðarhætti, skipulagsgerð og sálfélagsleg áhrif. Margvíslegum gögnum var safnað, s.s. gögnum varðandi stefnumótun á svæðinu, tölfræðilegum upplýsingum, loftmyndum og ljósmyndum. Útbúin var rafræn spurningakönnun sem send var á alla íbúa hreppsins sem þar hafa lögheimili ásamt SVÓT-greiningu sem fangar styrkleika og veikleika svæðisins, mögulegar ógnanir og tækifæri. Auk þessa fór rannsakandi á vettvang þar sem aðstæður voru skoðaðar og gögnum aflað með óformlegum viðtölum við heimafólk. Með þessi rannsóknargögn í farteskinu er vonast til að fá bæði mikilvæga sýn inn í reynsluheim og hugsunarhátt þeirra sem í Árneshreppi búa, bæta skilning á núverandi búsetuskilyrðum íbúa og auka líkurnar á að til verði skipulag sem íbúar sveitarfélagsins geta orðið á eitt sáttir um til framtíðar.

Þar sem vægi sálfélagsfræðilegra þátta er takmarkað í skipulagsgerð á Íslandi er von rannsakanda að með aukinni þekkingu og sífellt fjölbreyttari aðferðum við að meta skipulagsgerð þar sem aðstæður eru skoðaðar heildrænt, svo sem á sviði umhverfissálfræði, skapist aukin tækifæri til að vega þessa þætti inn með kerfisbundnum og markvissum hætti. Með slíkar upplýsingar í handraðanum má gera ráð fyrir að gæði skipulagsgerðar og framtíðarstefnumótunar batni frá því sem nú er.

Forsendur fyrir vali á viðfangsefni fyrir þetta verkefni voru ákveðnar spurningar sem vöknuðu hjá rannsakanda þegar hún var á ferðalagi um Árneshrepp sumarið 2020. Um leið og hún hreifst af stórfenglegu landslagi, víðáttu og friðsæld sveitarfélagsins og gestrisni íbúa, gat hún ekki staðist þá hugsun að þrátt fyrir alla þessa kosti hlyti að verða erfitt stöku sinnum að búa í hreppnum, þá sérstaklega að vetrarlagi. Í ljósi þessa fann rannsakandi hjá sér þörf til að leita svara við því hvað það væri sem fengi fólk til að vilja búa í Árneshreppi allt árið um kring.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image