Enn bætist við tegundir villtra matsveppa sem tína má í nágrenni Reykjavíkur

Endurmenntunardeild LbhÍ hefur staðið fyrir röð sveppanámskeiða núna í ágúst og september með Bjarna Diðrik Sigurðssyni, sem er prófessor við Landbúnaðarháskólann og höfundur „Sveppahandbókarinnar: 100 tegundir íslenskra villisveppa“ sem kom út í fyrra (2015).

Á þeim námskeiðum sem haldin voru í Reykjavík fóru þátttakendur m.a. í sveppamó á skógræktarsvæðin á Hólmsheiði ofan Grafarholts í Reykjavík. Þarna eru að vaxa upp umfangsmiklir birki, lerki og furuskógar sem gróðursettir voru á níunda áratugnum. Þetta svæði, og reyndar Hólmsheiðin öll, er núna eitt besta svæðið í nágrenni Reykjavíkur til að tína hina vinsælu matsveppi, lerkisvepp og furusvepp.

Þátttakendur í sveppanámskeiðunum í haust fundu margar góðar matsveppategundir á þessu svæði. Auk lerkisvepps og furusvepps, sem stundum er nefndur smjörsveppur, fundust margar ágætar matsveppategundir á svæðinu. Má þar nefna mókempu, rauðhettu, kúalubba (birkisvepp), sortulubba, flossvepp, grænhneflu, móhneflu og pípusveppinn sandsúlung, sem hefur orðið nokkuð algengur í furuskógum á síðustu fimm árum í nágrenni Reykjavíkur.

Mesta athygli vakti þó ný tegund matsveppa sem fram að þessu hafði ekki fundist svo staðfest sé við Reykjavík, og lengstum var aðeins þekkt frá einum afmörkuðum vaxtarstað á Íslandi, þ.e. Furulundinum á Þingvöllum, sem er elsti ræktaði skógur landsins frá árinu 1899. Þetta var sveppurinn nautasúlungur sem á latínu nefnist Suillus bovinus. Þessi matsveppategund vex með furutrjám eins og furusveppur og sandsúlungur og á Hólmsheiði er hún orðin nokkuð algeng með bergfuru sem þar vex.

Reyndar var talið að þessi sveppategund hafi sést einu sinni með fjallafuru fyrir rúmum 50 árum í gömlu gróðrarstöð Skógræktarfélags Reykjavíkur við Rauðavatn frá 1903, en hefur aldrei fundist aftur þar þrátt fyrir ítrekaða leit. Nú er hún hinsvegar greinilega búin að ná góðri fótfestu og er farinn að dreifast út í nágrenni Reykjavíkur og má því vænta að hún fari að finnast mun víðar. Nýlega hefur Bjarni Diðrik einnig fundið þessa tegund í gróðursettum stafafuruskógum á Suðurlandi (t.d. Snæfoksstöðum) og á Norðurlandi. Hér er því um að ræða nýja tegund matsvepps sem fólk getur farið að finna í furuskógum vítt og breitt um landið og sem skemmtilegt er að bætist við á veisluborð landsmanna.

Nautasúlungur er pípusveppur (neðra borð hattsins er ekki með rifjum, heldur sléttu lagi sem líkist rúmsvampi) og vex einungis með furutrjám. Hatturinn fullvaxinn getur verið 3-10 cm á breidd og er glansandi gulbrúnn og dálítið límkenndur viðkomu. Pípulagið undir hattinum er  grágult og með fremur stórum, köntuðum opum, sem eru margskipt að innan. Sveppurinn er ekki nærri eins stökkur og aðrar tegundir pípusveppa og það er hægt að beygja stafinn upp að hattbarði sveppsins á ungum eintökum án þess að hann brotni.

Nautasúlungur er ágætur matsveppur sem talsvert er tíndur í nágrannalöndunum. Það má benda fólki á það að bragðgæði þessa matsvepps aukast ef hann er þurrkaður áður en hann er eldaður og einnig verður hann þá ekki eins seigur undir tönn, sem rýrir matgæði hans ef hann er frystur eða eldaður ferskur.

 

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image