Hefur þú áhuga á skipulagsmálum, landnotkun, byggðaþróun, samgöngu- og þjónustukerfum og mótun umhverfis?
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ) býður upp á þrjú endurmenntunarnámskeið í skipulagsfræði í haust sem metin eru til ECTS eininga á meistarastigi. Þau sem sækja námskeiðin sitja sömu námskeið og nemendur í meistaranámi í skipulagsfræði hjá LBHÍ og eru námskeiðin kennd í fjarkennslu með staðarlotum.
Skipulagslögfræði og stjórnsýsluramminn þar sem fjallað er um íslenska réttarkerfið, þrígreint vald og hlutverk og vægi hvers þáttar. Farið er yfir meginreglur stjórnsýsluréttar, eignarrétt og lögvernd hans, reglur skipulags- og byggingarlaga, mat á umhverfisáhrifum, náttúruvernd og annað sem varðar skipulagsgerð. Námskeiðið hentar meðal annars arkitektum, landslagsarkitektum, hönnuðum og starfsfólki á umhverfis- og skipulagssviði sveitarfélaga. Ásta Sóley Sigurðardóttir stofnandi og eigandi Mannvirkjamál lögmannsstofu og Ásdís Hlökk Theodórsdóttir land- og skipulagsfræðingur, háskólakennari og ráðgjafi sjá um kennsluna. Námskeiðið er kennt í fjarkennslu með staðarlotum frá 28. ágúst - 29. nóvember, sjá nánar á https://endurmenntun.lbhi.is/skipulagslogfraedi/
Samgönguskipulag sem hentar öllum sem vilja skapa sér þekkingu á sviði samgönguskipulags og áhrifum samgöngukerfa á umhverfi okkar, daglegt líf og byggðamynstur og læra að tengja samgönguskipulag við aðra þætti skipulags. Erna Bára Hreinsdóttir forstöðumaður skipulagsdeildar hjá Vegagerðinni og Harpa Stefánsdóttir prófessor í skipulagsfræði við LBHÍ sjá um kennsluna. Námskeiðið er kennt í fjarkennslu með staðarlotum frá 17. október til 29. nóvember, sjá nánar á https://endurmenntun.lbhi.is/samgonguskipulag/
Skipulagskenningar er námskeið þar sem fjallað er um faggreininga skipulagsfræði og helstu kenningar hennar. Gerð er grein fyrir hugmyndafræði, skilgreinngum og hugsanakerfi í skipulagsfræði, farið yfir sögu og þróun ráðandi hugmynda og samspil þeirra, helstu áhrifavalda og hagsmunahópa sem ráða ferðinni og hvaða áhrif skipulagsfræðin hefur á umhverfi okkar. Kennari er Astrid Lelarge aðjúnkt í skipulagsfræði við LBHÍ og námskeiðið er kennt í fjarkennslu með staðarlotum frá 17. október til 29. nóvember, sjá nánar á https://endurmenntun.lbhi.is/skipulagskenningar/
Endurmenntun LBHÍ býður upp á fjölbreytt námskeið á sviði umhverfis- og náttúruvísinda, búfræði og búvísinda, skipulags- og hönnunar sem hægt er að fræðast nánar um á heimasíðu Endurmenntunar LBHÍ.