Á námskeiðinu Skógarhönnun, skógræktar- og landnýtingaráætlanir verður fjallað um helstu aðferðir við gerð landnýtingaráætlana og þeirra fjölmörgu atriða sem taka þarf tillit til s.s. minja og náttúruverndar, landslags, markmið skógræktar og loks skógræktarskilyrða. Farið verður í heildarskipulagningu bújarða þar sem skóg- og skjólbeltarækt er hluti af landnýtingunni. Skoðaðir verða þættir eins og landlæsi, skógræktarskilyrði, umhverfisvernd, landslagsmótun með skógi, val á trjátegundum miðað við aðstæður og markmið með skógræktinni.
Námskeiðið samanstendur af fyrirlestrum, umræðum og í lokin verklegri æfingu þar sem þátttakendur vinna með sína jörð og hefjast handa við gerð landnýtingaráætlunar.
Kennari er Valdimar Reynisson skógfræðingur. Valdimar er með langa reynslu í skógrækt, hann lauk námi frá Garðyrkjuskóla ríkisins árið 1990 af námsbrautinni Skógur og umhverfi, BS gráðu í skógfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands 2007 og meistaraprófi í skógarstjórnun (forest management) frá SLU í Svíþjóð 2011. Hann hefur starfað við allt sem við kemur skógrækt, sem vélamaður, skógarhöggsmaður, verkstjóri, skógarvörður, verktaki og skógræktarráðgjafi.
Nánari upplýsingar og skráning á vef Endurmenntunar Landbúnaðarháskóla Íslands.