Endurmenntun: Sjálfbært skipulag þéttbýlis

Sjálfbært skipulag þéttbýlis er hagnýtt námskeið þar sem tekin eru fyrir nokkur af mikilvægustu sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem tengjast þróun byggðar. Kannað verður hvernig innleiða megi þau í hagnýtu skipulagsverkefni og skoðað hvernig samgöngur, þéttleiki og ýmis einkenni byggðar, mótun almenningsrýma, tengingar milli svæða, félagslegir og samfélagslegir þættir, náttúrufar og aðrar staðbundnar aðstæður skapa forsendur fyrir mögulega þróun byggðar.

Þátttakendur þjálfast í að afla og vinna með upplýsingar tengt áðurnefndum þáttum byggt á þekkingarstöðu samtímans og staðbundnum upplýsingum. Jafnframt verður mat lagt á hvernig mögulegar lausnir uppbyggingar gætu haft áhrif á gæði byggðar með sjálfbærnimarkmið og hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Mismunandi hagsmunir verða kannaðir gegnum samráðsfund sem nemendur undirbúa og halda á námskeiðinu.

Á námskeiðinu þjálfast þátttakendur í að beita færni og verkfærum síns fræðasviðs í þverfaglegu samtali hópsins við að nálgast mögulega skipulagskosti í hagnýtu tilviki. Að þessu sinni er það Þorlákshöfn sem verður fyrir valinu.

Miðað er við að þátttakendur byggi að miklu leiti á þeirri færni og þeim verkfærum sem þeir hafa þegar aflað í öðrum námskeiðum, í starfi og/eða innan annarra fræðasviða.

Æskilegar forkröfur eru BS/BA gráða í arkitektúr, landslagsarkitektúr, landfræði, verkfræði, skipulagsfræði eða félags- og hugvísindum.

Námskeiðið er metið til 6 ECTS eininga á meistarastigi og fer fram í lotum þar sem skiptist á staðlotuvika og þriggja vikna fjarnámstímabil með styttri fyrirlestrum og verkefnavinnu undir leiðsögn kennara. 

Skráning og allar nánari upplýsingar á vef Endurmenntunar LBHÍ: https://endurmenntun.lbhi.is/sjalfbaert-skipulag/

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image