Birt hefur verið skýrslan, Endurheimt staðargróðurs á framkvæmdasvæðum - Þingvallavegur. Steinunn Garðarsdóttir sérfræðingur vann skýrsluna með dyggri aðstoð Ásu L. Aradóttur prófessors og er skýrslan hluti af verkefninu VegVist sem styrkt er af Vegagerðinni.
VegVist verkefnið hefur verið í gangi frá árinu 2014 en nýjasta skýrslan fjallar fyrst og fremst um uppgræðslu vegfláa við endurbætur á þeim hluta Þingvallavegar sem liggur í gegnum Þjóðgarðinn. Framkvæmdin á Þingvöllum var tímamótaverkefni þar sem það var langstærsta vegaframkvæmd til þessa sem nýtir staðargróður í frágang með því að flytja heilar gróðurtorfur af gamla vegstæðinu yfir í nýja vegfláann.
„Þetta er mjög spennandi verkefni og verður hluti af meistararitgerð minni sem kemur út síðar á þessu ári. Þar set ég framkvæmdina á Þingvöllum í samhengi við önnur vegagerðarverkefni sem nýta mismunandi uppgræðsluaðferðir.“ segir Steinunn Garðarsdóttir sérfræðingur hjá LbhÍ.