Emma Eyþórsdóttir við kennslu í ullarflokkun ásamt Loga Sigurðsyni bústjóra á Hesti.

Emma Eyþórsdóttir dósent í búerfðafræði og kynbótum lætur af störfum eftir farsælan feril.

Fjarfundarkveðjuhóf til heiðurs Emmu Eyþórsdóttur á síðasta starfsdegi hennar 7. maí s.l.

Emma Eyþórsdóttir hóf starfsferill sinn hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem starfsmaður við tilraunabúið á Hesti 1973 og síðar sem aðstoðarmaður við beitartilraunir 1976 og 1977. Hún starfaði sem sérfræðingur við Rannsóknastofnun landbúnaðarins frá 1983 og sem deildarstjóri búfjárdeildar 1998-2004. Við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands 2005 var hún skipuð dósent við skólann.

Um störf vísindamannsins Emmu Eyþórsdóttir er ritað svo á Vísindavef Háskóla Íslands: 

Emma hefur fengist við rannsóknir á íslensku búfé, aðallega sauðfé. Meðal helstu viðfangsefna hafa verið ullar- og gærueiginleikar hjá íslensku sauðfé og einnig ræktun kjöteiginleika og kjötgæði. Gæði afurða eru lykilatriði í allri búfjárrækt og þar hefur náðst mikill árangur í ræktun íslenska sauðfjárins sem endurspeglast ekki síst í auknum gæðum lambakjöts. Tilrauna- og kennslubú landbúnaðarháskólans að Hesti í Borgarfirði hefur verið miðstöð sauðfjárkynbóta í landinu í áratugi og þar eru einnig gerðar margvíslegar rannsóknir á sauðfé sem Emma hefur tekið virkan þátt í. Emma hefur einnig unnið að rannsóknum á ull og hefur meðal annars sinnt gæðamati á ull sem formaður Ullarmatsnefndar um árabil og staðið fyrir fræðslu um ullargæði og ullarmeðferð. Einnig má nefna rannsóknir á íslenskri bleikju við upphaf bleikjueldis þar sem bornir voru saman stofnar af mismunandi uppruna með það að markmiði að finna hentugan efnivið til kynbóta fyrir eldi. Þessi rannsókn varð grundvöllur að kynbótum á bleikju og bleikjueldi hefur stöðugt farið vaxandi síðan. 

Emma hefur verið virk í norrænu samstarfi, hún hefur meðal annars tekið þátt í rannsóknum á skyldleika og erfðabreytileika norrænna búfjárkynja og stýrt slíku verkefni um sauðfé. Emma hefur setið í Erfðanefnd landbúnaðarins frá stofnun nefndarinnar árið 2003 og sem formaður frá 2015. Áður var hún formaður erfðanefndar búfjár. Enn fremur hefur hún setið í stjórn Norræna genabankans fyrir húsdýr og síðar í húsdýraráði NordGen sem sinnir norrænu samstarfi um erfðaauðlindir í landbúnaði. Frá 2017 hefur hún verið í stjórn NordGen. Emma lauk BSA-prófi í landbúnaðarfræðum með áherslu á búfé frá Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada 1977. Hún stundaði framhaldsnám í búfjárkynbótum við landbúnaðarháskólann í Ási í Noregi 1986 – 1993.

Landbúnaðarháskólinn kvaddi Emmu á síðasta starfsdegi sínum þann 7. maí síðast liðinn á fjarfundi við allar þrjár starfstöðvar skólans og starfsmenn og hefðbundinni kveðjuveislu er því frestað þar til aðstæður leyfa. Fjarkveðjufundurinn gekk mjög vel og var Emmu þakkað fyrir langan og farsælan feril við skólann og óskað velfarnaðar.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image