Ellefu sérfræðingar útskrifast úr Landgræðsluskóla HSÞ

Árlegu sex mánaða námi við Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna lauk í vikunni þegar 11 sérfræðingar frá sjö löndum í Afríku og Mið-Asíu útskrifuðust við hátíðlega athöfn á Keldnaholti í Reykjavík. Nemarnir komu að þessu sinni frá Kirgistan og Mongólíu í Mið-Asíu og Gana, Malaví, Níger, Lesótó og Úganda í Afríku, fimm konur og sex karlar. Þetta var í tíunda sinn sem útskrifaðir voru sérfræðingar úr  Landgræðsluskólanum og er heildarfjöldi útskrifaðra kominn í 87 og er kynjaskiptingin nánast jöfn eða 48% konur og 52% karlar.

Það var ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Stefán Haukur Jóhannesson, og rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Björn Þorsteinsson, sem afhentu nemunum útskriftarskírteinin og flutt voru nokkur ávörp. Í ávarpi ráðuneytisstjóra var komið inn á mikilvægi landgræðslu og sjálfbærrar landnýtingar til að tryggja fæðuöryggi og draga úr áhrifum loftslagsbreytinga og landgræðslustjóri, Árni Bragason, sem jafnframt er formaður stjórnar Landgræðsluskólans, ávarpaði útskriftarhóp í fyrsta skiptið en hann tók við embætti í maí sl. Einnig fluttu tveir nemar skólans ræðu fyrir hönd hópsins, þau Zhyrgalbek Kozhomberdiev frá Kirgistan og Mariama Boubou Diallo Oumarou frá Níger.

Hafdís Hanna Ægisdóttir er forstöðumaður Landgræðsluskóla HSþ og við skólann starfa auk hennar Berglind Orradóttir og Halldóra Traustadóttir. Þar að auki kemur fjöldi manns að kennslu við skólann, og eru helstu kennarar prófessorar og sérfræðingar frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Landgræðslu ríkisins.

Heimasíða Landgræðsluskólans

Háskóli Íslands
Útskriftarhópurinn ásamt starfsfólki Landgræðsluskólans

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image