Reiðkennari sýnir áhorfendum réttu handtökin

Haukur Bjarnason reiðkennari við Reiðmannsnám Endurmenntunar LBHÍ

Einstaklega vel sóttur Fræðsludagur Reiðmannsins

Fræðsludagur Reiðmannsins var haldinn í Menntaskóla Borgarfjarðar og í reiðhöll LBHÍ að Mið-Fossum. Fræðsludagurinn er árlegur viðburður fyrir nemendur sem skráðir eru í námið Reiðmaðurinn I, II eða III. Skemmst er frá því að segja að dagurinn tókst í alla staðið einstaklega vel.

Fjöldi þeirra sem mætti fór langt fram úr væntingum og voru um 120 nemendur sem bæði sóttu hina fjölbreyttu fyrirlestra sem í boði voru og svo síðar um daginn sýnikennslu í reiðhöll LBHÍ. Tæknin var nýtt til fullnustu í sýnikennslunni og voru reiðkennarar tengdir hátalarakerfi reiðhallarinnar þannig að öll sem sóttu sýnikennsluna heyrðu vel hvað hver reiðkennari hafði fram að færa.

Dagskrá fyrri hluta dagsins:

  • Einar Ásgeirsson fóðurfræðingur hélt mjög fræðandi erindi fyrir 1. árs nemendur um vetrarfóðrun reiðhesta.
  • Sigurður Torfi Sigurðsson járningameistari fjallaði um járningar og hófhirðu á fræðandi hátt fyrir 2. árs nemendur.
  • Susanne Braun dýralæknir flutti erindi fyrir 3. árs nemendur sem hét „Á bak við skekkjuna“ og fjallaði meðal annars um mikilvægi þess að þjálfarar hafi góða innsýn í heilsu og lífshætti hesta.
  • Bergrún Ingólfsdóttir fjallaði um knapaþjálfun, sem er afar mikilvægt og áhugavert efni fyrir alla hestamenn.
  • Benedikt Lindal tamningameistari var með fyrirlestur um „Þjálfun á víðavangi“. Benedikt lagði m.a. áherslu á kyrrð, traust og vellíðan hestsins.

Dagskrá síðari hluta dagsins - sýnikennslur í glæsilegri reiðhöll á Mið-Fossum.

  • Haukur Bjarnason útskýrði og sýndi mikilvægi stjórnunar á spennustigi og vinnuformi í upphafi vetrarþjálfunar, hvernig hesturinn á að vera slakur, mjúkur og spennulaus með nánast ósýnilegar ábendingar. Aðaláherslan var á að bæta gangtegundir, líkamsbeitingu og burðargetu hestsins.
  • Árný Oddsdóttir tók síðan við og fjallaði um og sýndi notkun ábendinga og tímasetningar þeirra. Hún útskýrði mjög nákvæmlega hvernig hún notar ábendingar og hversu mikilvæg rétt tímasetning vær.
  • Bjarki Þór Gunnarson kom með fjögurra vetra meri og ræddi um hvernig sköpulag hefur áhrif á vetrarþjálfun, hvernig þjálfunar áætlun fyrir hestinn er sett með hliðsjón á byggingu hestsins.

Fræðsludagurinn er hluti af námi/námskeiðum sem í boði eru hjá Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands. Nánari upplýsingar má finna á https://endurmenntun.lbhi.is/.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image