Landbúnaðarháskóli Íslands (LbhÍ) hefur leitt metnaðarfullt samstarfsverkefni um eflingu þverfaglegs samstarfs háskóla á sviði skipulagsfræði. Verkefnið var styrkt af sjóðnum „Samstarf háskóla,“ sem stofnaður var af háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, með það að markmiði að styrkja samstarf milli háskóla landsins.
Dr. Harpa Stefánsdóttir, prófessor í skipulagsfræði við LbhÍ, leiddi verkefnið í samstarfi við Háskóla Íslands (HÍ), Listaháskóla Íslands (LHÍ) og Háskólann í Reykjavík (HR). Markmið verkefnisins fól í sér að greina námsframboð og möguleg samstarfsform milli samstarfsháskólanna sem geta stuðlað að samlegðaráhrifum við að styrkja þekkingargrundvöll tengt viðfangsefnum skipulagsmála, auka gæði M.Sc. námsbrautar í skipulagsfræði og bæta hagkvæmni og þverfaglega umræðu.
Verkefnið var í aðalatriðum fjórþætt. Í fyrsta lagi var farið yfir þau hæfniviðmið sem þarf að uppfylla til að standast kröfur um hæfi skipulagsfræðinga. Í öðru lagi var unnið að greiningu námsframboðs sem gæti gagnast til að styrkja M.Sc. námsbraut í skipulagsfræði. Í þriðja lagi var skoðað hvernig megi fjalla um viðfangsefni skipulags á öðrum námsbrautum ásamt því hvernig megi undirbúa nemendur á bakkalárstigi til þess að stunda M.Sc. nám í skipulagsfræði. Samhliða fór fram skoðun á formsatriðum vegna fyrirkomulags á námskeiðum, ásamt þeim möguleikum og hagnýtu áskorunum sem felast í því að vera í samstarfi þvert á háskólana og námsbrautir. Í fjórða lagi voru möguleg samstarfsform um nám tengt skipulagsfræði milli samstarfsháskólanna greind.
Niðurstöður verkefnisins benda til þess að þverfaglegt samstarf geti ekki aðeins eflt gæði og hagkvæmni náms í skipulagsfræði, heldur einnig aukið þekkingu á sviðum eins og arkitektúr, landfræði og umhverfisverkfræði. Verkefnið varpar einnig ljósi á þær mögulegu áskoranir sem fylgja samstarfi þvert á háskóla en á sama tíma bendir á möguleikana í frekara samstarfi.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér