Nýja vélin er af gerðinni Haldrup C-70 og er tilraunaþreskivél sem ræður við fræ af öllum stærðum frá örsmáu grasfræi upp í korn og baunir og getur með nákvæmum hætti skorið upp, þreskt, vegið og metið fræuppskeru.

Efling starfsemi Jarðræktarmiðstöðvar

Vinna við tilraunakornakur Jarðræktarmiðstöðvar LbhÍ
Nýr tækjabúnaður stóreflir gæði rannsókna og nákvæmni vinnunnar segir Jónína Svavarsdóttir starfsmaður Jarðræktarmiðstöðvar.

Nýverið fékk Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands styrk frá Innviðasjóði Rannís til kaupa á fullkominni tilraunaþreskivél til nota við jarðræktarrannsóknir. Vélin er nauðsynlegur grunnbúnaður og síðasti hlekkurinn í keðju vélbúnaðar sem keyptur hefur verið á undanförnum árum til að færa aðstöðu jarðræktarrannsókna á Íslandi til nútímans, en sá búnaður sem unnið var með var löngu úreltur.

„Tilraunaþreskivél sú sem hér er til umræðu fullkomnar þennan búnað og getur margfaldað umfang þeirra tilrauna sem hægt verður að takast á hendur við LbhÍ“ segir Hrannar Smári Hilmarsson tilraunastjóri.

Nýja vélin er af gerðinni Haldrup C-70 og er tilraunaþreskivél sem ræður við fræ af öllum stærðum frá örsmáu grasfræi upp í korn og baunir og getur með nákvæmum hætti skorið upp, þreskt, vegið og metið fræuppskeru úr einstökum tilraunareitum eða smáreitum. Með vélinni fylgir NIRS (Near Infrared Reflectance Spectroscopy) sem mælir þurrefni uppskerunnar, vatnsleysanleg kolvetni og hráprótein. Þannig fæst reiknað fóðurgildi uppskerunnar. Þannig fást ekki aðeins uppskerutölur úr tilraunareitunum heldur einnig upplýsingar um gæði uppskerunnar.

Nýja vélin var að stórum hluta fjármögnuð með styrk úr innviðasjóð Rannís en hlutverk hans er að byggja upp rannsóknainnviði á Íslandi og efla þar með innlendar vísindarannsóknir með aðstoð við fjármögnun. Þessir styrkir gera skólanum kleyft að eflast til muna og rímar vel við stefnu skólans til framtíðar um aukna áherslu á rannsóknir, nýsköpun og kennslu.

Góð aðstaða og afkastamikill tækjabúnaður á tilraunastöð er grunnur undir tilraunir af þessu tagi og önnur fræðistörf vísindamanna LbhÍ, og ekki síður grunnur undir fræðastarf skólans, sem æðri menntastofnunar, og ráðgjafarstarfsemi RML. Undanfarin tvö ár hefur verið unnið að því að stórefla aðstöðu LbhÍ til jarðræktartilrauna með kaupum á nákvæmum vélbúnaði og má í því sambandi nefna frætalningarvél, borðþreskivél, reitaáburðardreifara, reitasáningarvél og reitasláttuvél sem leysir af hendi tímafreka vinnu sem áður var að miklu leiti handunnin. Lífland aðstoðaði við kaupin á reitasáðvélinni sem tekin var í notkun í vor. Einnig kom styrkur frá fyrrum búfræðingum sem brautskráðust 1968 og héldu því upp á 50 ára afmæli 2018. Þeim er sérstaklega þakkað fyrir sitt framlag.

„Með þessum nýja tækjabúnaði stóreflum við gæði rannsókna og nákvæmni vinnunnar“ segir Jónína Svavarsdóttir starfsmaður hjá Jarðræktarmiðstöðinni.

Áður til að mynda voru fræ handtalin en með betri búnaði aukast afköstin til muna og þar með gæði vinnunnar.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image