Í nýrri grein eru leiðbeiningar fyrir vísindafólk sem hyggst taka sýni úr dýrabeinum úr fornleifarannsóknum. Agata Gondek

Dýrabein úr fornleifarannóknum - fjársjóður varðveittur til framtíðar

Hreinsun á klettbeini (e. petrous bone) úr sauðkind fyrir fornDNA sýnatöku

Dýrabein og tennur finnast í fornleifarannsóknum um allan heim og hægt er að nota þau í margvíslegar rannsóknir á fortíðinni. Nú hafa margir vísindamenn uppgötvað þetta gagnasafn og ásókn er að aukast um allan heim til sýnatöku úr dýrabeinum úr fornleifarannsóknum. Margir virðast halda að það sé endalaust til af dýrabeinum úr fornleifarannsóknum og vissulega er rétt að í sumum fornleifarannsóknum finnast tugir eða hundruðir þúsunda dýrabeina. En sem dæmi má skoða dýrabeinasafn frá Turku í Finnlandi, þar fundust 1300 kg af dýrabeinum en í þessu stóra safni voru samt bara 20 bein úr hrossum og líklega voru þessi 20 bein bara úr tveimur einstaklingum.

Takmörkuð auðlind sem sé nýtt á sem bestan hátt

Albína Hulda Pálsdóttir dýrabeinafornleifafræðingur og sérfræðingur við LbhÍ hefur nú ásamt fjölþjóðlegu teymi birt grein með leiðbeiningum fyrir vísindafólk sem hyggst taka sýni úr dýrabeinum úr fornleifarannsóknum. Eyðileggjandi sýnatökur geta skilið mikilli nýrri þekkingu en það þarf að gæta þess að ganga ekki á auðlindina. „Það er mikið af upplýsingum í dýrabeinum og –tönnum sem finnast í fornleifarannsóknum og þau eru hluti af þeim menningararfi sem við viljum varðveita fyrir komandi kynslóðir“ segir Albína. Þegar það á að gera forn DNA, ísótópa eða kolefnisaldursgreiningar á dýrabeinum þá þarf að bora í þau eða saga part af þeim sem er svo malaður í duft. Það er misjafnt eftir aðferðum hversu stórt sýnið þarf að vera og hvar er best að taka það og svo framvegis. Sum bein eru það lítil að það er bara hægt að taka sýni úr þeim einu sinni og þá er mikilvægt að búið sé að skrá beinið vel fyrir sýnatöku og tryggt sé að sýnatakan skili árangri.

Á þessu ári hafa komið út stórar rannsóknir t.d. á uppruna svína og hesta þar sem tekin hafa verið sýni úr hundruðum beina úr fornleifarannsóknum víða um heim sem spanna nokkur þúsund ár og við vitum að fjöldi slíkra verkefna er í gangi núna. „Við vonum að með því að hafa tekið saman þessar leiðbeiningar byggðar á okkar reynslu af því að stunda rannsóknir á dýrabeinum munum við stuðla að því að þessi takmarkaða auðlind sé nýtt á góðan hátt.“ segir Albína. Fyrir framtíðar kynslóðir rannsakenda, þar sem tækni og þekkingu hefur væntanlega fleygt fram, þarf að tryggja að að ekki sé gengið um of á sýnin núna.

Fjölþjóðlegt teymi kom að ritun greinarinnar, Albína H. Pálsdóttir, dýrabeinafornleifafræðingur og fornerfðafræðingur og Dr Jón H. Hallsson erfðafræðingur bæði við Landbúnaðarháskóla Íslands, Auli Dr. Bläuer og Dr. Eve Rannamäe dýrabeinafornleifafræðingar frá Finnlandi og Eistlandi og Dr Sanne Boessenkool fornerfðfafræðingur frá Háskólanum í Osló.

Greinin birtist í tímaritinu Royal Socitey Open Science í opnum aðgangi hér

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image