Dr. Björn Sigurbjörnsson fyrrum forstjóri Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins (RALA) er látinn. Björn stýrði RALA frá 1974 og starfaði þar til 1983 við góðan orðstír. RALA var ein af þeim stofnunum sem varð að Landbúnaðarháskóla Íslands við sameiningu árið 2005.
Björn lauk búfræðiprófi frá Hvanneyri 1952 og hóf sama ár nám við Manitobaháskóla í Kanada. Hann lauk MS-prófi 1957 í frumuerfðafræði, jarðrækt og búvísindum. Þá nam Björn erfðafræði og jurtakynbætur við Cornell-háskóla og lauk doktorsprófi þaðan 1960 og fjölluðu rannsóknir hans um íslenska melgresið.
Frá 1960 starfaði Björn sem sérfræðingur í jurtakynbótum við búnaðardeild Atvinnudeildar Háskóla Íslands til 1963. Þá var honum boðin staða í Vínarborg hjá Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA: International Atomic Energy Agency) sem sérfræðingur í notkun geisla til að framkalla stökkbreytingar til jurtakynbóta. Björn var deildarstjóri og síðar aðstoðarforstjóri hjá sameiginlegri rannsóknarstofnun Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) í Róm og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) í Vínarborg. Eftir störf Björns hjá RALA tók hann við forstjóraembætti sameiginlegrar deildar FAO/IAEA.
Frá 1995 til 2000 var Björn ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu. Þar tók hann þátt í vísinda- og stjórnunarstarfi í þágu „Grænu byltingarinnar“ og voru þessar rannsóknir hluti af verkefni sem hjálpaði fátækustu þjóðum heims að verða sjálfbjarga með matvælaframleiðslu og nefndist „Fæðum hungraðan heim“. Þar snéri eitt stærsta verkefnið að jurtakynbótum á hrísgrjónum og tókst að skeyta A-vítamíni í hrísgrjón og draga þannig úr tíðni blindu hjá börnum. Björn var heiðursprófessor við kínversku og rúmensku landbúnaðarakademíurnar ásamt því að hljóta riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1986 fyrir vísindastörf sín á alþjóðavettvangi.
Landbúnaðarháskóli Íslands þakkar Birni fyrir störf sín og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.