Mótun jarðvegsþátta við þróun skóglendis frá skóglausu landi til birkiskógar.
Vörnin fer fram þann 20. ágúst nk. á Keldnaholti, Árleyni 22, Reykjavík og hefst klukkan 13:00. Vörninni verður einnig streymt á Teams. Vörnin fer fram á ensku.
Leiðbeinendur Sólveigar Sanchez eru Prófessor Ólafur Arnalds, Landbúnaðarháskóli Íslands, Dr Jóhann Þórsson, Land and skógur, Prófessor Randy Dahlgren, University of California, Davis og Prófessor Ása L. Aradóttir, Landbúnaðarháskóli Íslands. Andmælendur eru Prófessor Paul A. McDaniel, University of Idaho og Prófessor Graeme I. Paton, University of Aberdeen.
Ágrip
Eyðing náttúrulegs skóglendis hefur leitt til hnignunar á frjósemi jarðvegs og röskunar á næringarefnahringrásum víða um heim. Á Íslandi jókst landhnignun til muna eftir eyðingu birkiskóganna, en birki er eina innlenda trjátegundin sem myndar skóga. Íslensk stjórnvöld stefna á að endurheimta hluta birkiskóganna. Markmið þessarar rannsóknar er að fylla upp í mikilvæg þekkingargöt er lúta að jarðvegi birkiskóganna, m.a. í tengslum við endurheimt náttúrulegs skóglendis á Íslandi. Til rannsóknar voru valin tíu svæði vítt um landið, sem hvert um sig spannaði skóglaust land, ungan skóg og 60+ ára skógarteiga. Lögð var áhersla á lífrænt kolefni í jarðvegi, leirefni/örefni (e. soil colloids), sem og ferli er lúta að vatnseiginleikum. Jarðvegurinn á öllum svæðunum reyndist fjölbreytileg eldfjallajörð (e. Andisols) sem einkennist af allófani, ferrihydríti og málm-húmus knippum. Rannsóknin sýndi að allófan í jarðveginum hafði afar breytileg Al/Si hlutföll, sem rekja mátti til áhrifa aldurs jarðvegsins, ryksöfnunarhraða og sýrustigs jarðvegs.
Niðurstöðurnar sýndu fram á verulega kolefnisbindingu í gömlum birkiskógarjarðvegi, með kolefnisbirgðir upp á 7,4 kg/m2 í efstu 30 cm moldarinnar (marktækt hærri en á skóglausu landi: 5,0 kg/m2), og árlega kolefnisuppsöfnun upp á 0,04-0,07 kg/m2 á ári. Bindingin var að mestu leyti rakin til sortueiginleika (e. andic properties) og örefna í moldinni, þar á meðal málm-húmus knippa, sem juku stöðugleika kolefnis. Miðað við þessar niðurstöður getur möguleg kolefnisbinding í jarðvegi birkiskóga numið um 7% af nýverandi losun gróðurhúsaloftteguna á Íslandi ef þeir ná 5% þekju í samræmi við stefnumið stjórnvalda um endurheimt þeirra. Jarðvegur í gömlu skóglendi hélt mun meira vatni en ungur skógur og skóglaust land (63,5% við mettun, 45,6% við visnunarmark að meðaltali). Ísig var mjög ört (>586 mm/klst. á sumrin) á þeim stað sem það var mælt, vegna mikils holrýmis í jarðvegi og gróskumikils gróðurs á yfirborði sem örvar innflæðið og kemur í veg fyrir stöðvun á ísigi á veturna (sem er lykilatriði fyrir vatnsheilbrigði jarðvegsins). Í ljós kom að áfok (ákoma ryks) hafði mikil áhrif á jarðvegseiginleika, svo sem kolefnisdýnamík og efnasamsetningu allófans (Al/Si hlutfall), og einnig með því að jafna sýrustig jarðvegsins (böffer). Rykið grefur kolefni (allt að 0,026 kg/m2 á ári þar sem áfok er mest), sem stuðlar að uppsöfnun kolefnis. Niðurstöðurnar sýna að birkiskóglendi á Íslandi mynda kolefnisríkan og frjósaman jarðveg með góða vatnsfræðilega eiginleika. Verndun og endurheimt birkiskóga þjóna því mikilvægu hlutverki í þágu umhverfisins í dag og fyrir Ísland framtíðarinnar.