Doktorsvörn Önnu Mariager Behrend í endurheimt vistkerfa

Vörnin fer fram þann 22. október nk. á Keldnaholti, Árleyni 22, Reykjavík og hefst klukkan 10:30. Vörninni verður einnig streymt á Teams. Vörnin fer fram á ensku. Hlekk á vörnina má finna hér.

Leiðbeinendur Önnu Mariager Behrend eru Prófessor Ása L. Aradóttir, Landbúnaðarháskóla Íslands, Dr Kristín Svavarsdóttir, Land and skógur og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, Háskóla Íslands.

Andmælendur eru Prófessor Alison J. Hester, The James Hutton Institute, og Prófessor Susana Bautista, University of Alicante.

Ágrip

Mynstur og ferli við landnám birkis; þekkingarsköpun fyrir stórfellda endurheimt birkiskóga

Hnignun og tap vistkerfa jarðar kallar á víðtæka vistheimt. Þetta á einnig við á Íslandi, sem hefur glatað yfir 95% af upprunalegu birkiskógum sínum frá landnámi. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér metnaðarfull markmið um endurheimt birkiskóganna og hyggjast auka útbreiðslu þeirra úr 1,5% í 5%. Svo stórfelld vistheimt er aðeins raunhæf með lágmarksinngripum þar sem treyst er á sjálfgræðslu en þá verður að vera fyrir hendi þekking á landnámsferlum birkis og takmarkandi þáttum.

Megintilgangur þessarar rannsóknar var að auka þekkingu á mynstrum, ferlum og helstu drifkröftum aukinnar útbreiðslu birkiskóga með sjálfgræðslu. Rannsóknirnar byggðu bæði á tilraunum og samanburðarathugunum og spönnuðu breiðan kvarða í rúmi, allt frá næsta umhverfi kímplantna og upp í samanburð á tíu birkiskógum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Suðausturlandi og Suðurlandi. Í tíma spanna rannsóknirnar frá lifun og vexti kímplantna upp í áratuga ferli þar sem byggt var á samanburði á loftmyndum.

Greining á loftmyndum sýndi að birkiskógarnir höfðu að meðaltali stækkað útbreiðslusvæði sitt um 2% á ári yfir 38–65 ára tímabil. Útbreiðsluhraði var alla jafna meiri á svæðum sem höfðu verið friðuð fyrir beit en á beittu landi. Hröðust var útbreiðslan á friðuðu landi sem hafði verið örfoka en þar sem uppgræðsla hafði verið stunduð. Þessi stækkun birkiskóganna skýrist að mestu af sjálfgræðslu eins og kom skýrt fram í vettvangsrannsóknum við skógarjaðra. Þær sýndu ennfremur að landnám birkis takmarkaðist einkum af staðbundnum umhverfisþáttum á fyrstu stigum landnáms, svo sem framboði á öruggum setum, vindafari og jarðvegsskilyrðum, auk rasks vegna búfjárbeitar. Þéttleiki birkiplantna var mestur innan við 20 m frá skógarjaðri, sem bendir til þess að fræframboð hafi verið takmarkandi þáttur. Landnámsmynstur voru breytileg á milli svæða en á flestum var þéttleiki birkis yfir 100 plöntur á m² í a.m.k. 100 m fjarlægð frá skógarjaðri. Niðurstöðurnar sýndu einnig jákvætt samband á milli hæðar trjánna og stærðar landnámssvæða og jafnframt á milli hæðar skóga og vaxtarlags ungplantna við jaðrana. Sáingartilraunir staðfestu mikilvægi hagstæðra öruggra seta fyrir landnám birkis. Landnám var enn fremur afar breytilegt eftir vistgerðum, framboði á öruggum setum og að hluta til einnig eftir uppruna fræsins sem var notað. Þessum þáttum má stýra í vistheimt til að bæta aðstæður fyrir landnám og lifun birkis.

Niðurstöður ritgerðarinnar sýna að sjálfgræðsla birkis er áhrifarík leið til að auka umfang birkiskóga. Aukin þekking á landnámsferlum birkis og öðrum þáttum er hafa áhrif á útbreiðslu birkiskóganna styðja einnig markvissari leiðsögn um hvernig hægt sé að auka nýliðun og sjálfgræðslu birkis með takmörkuðum inngripum og þannig stuðla að endurheimt birkskóganna.

Lykilorð: Betula pubescens ssp. tortuosa, birkiskógur, ilmbjörk, sjálfgræðsla, nýliðun, endurheimt vistkerfa, útbreiðsla vistkerfa í tíma og rúmi

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image