Doktorsvörn Mathilde Defourneaux í náttúru - og umhverfisfræði

Doktorsvörn Mathilde Defourneaux í náttúru- og umhverfisfræði

Mathilde Defourneaux ver doktorsritgerð sína á sviði Náttúru- og umhverfisfræði við deild Náttúru og skóga við Landbúnaðarháskóla Íslands.  

 

Ritgerð Mathilde ber heitið The impacts of spatio-temporal shifts in vertebrate herbivore communities on the functioning of the Icelandic tundra“ eða á íslensku „Breytingar á samfélögum grasbíta í tíma og rúmi: áhrif á virkni íslenskra túndruvistkerfa“. 

Vörnin fer fram þann 18. desember nk. á Keldnaholti, Árleyni 22, Reykjavík og hefst klukkan 14:00. Vörninni verður einnig streymt á Teams. Vörnin fer fram á ensku. 

 

Leiðbeinendur Mathilde eru Professor. Isabel C. Barrio, Professor James D.M. Speed og Lektor Noémie Boulanger-Lapointe. 

Andmælendur eru Dr. Camilla Fløjgaard, Århus University í Danmörku og Professor Robin Pakeman frá James Hutton Institute í Skotlandi. 

 

Ágrip: 

Hraðar umhverfisbreytingar á norðurslóðum hafa í för með sér breytingar á stofnstærð, útbreiðslu og atferli grasbíta, sem hefur áhrif á samfélagsgerð þeirra. Þær breytingar munu síðan hafa afleiðingar fyrir byggingu og virkni vistkerfa, einkum vegna beinna áhrifa grasbíta á lífmassa gróðurs og hringrásir næringarefna. Þrátt fyrir það eru áhrif grasbíta á virkni vistkerfa enn illa þekkt, sérstaklega þegar um er að ræða samspil margra tegunda grasbíta. Mikilvægt er að bæta þekkingu á þessum áhrifum í túndruvistkerfum sem nýtt eru af mismunandi grasbítum, bæði villtum grasbítum og búfé, til að tryggja þróun sjálfbærrar landnýtingar.

Ég rannsakaði hvernig breytingar á samfélögum grasbíta hafa áhrif á virkni íslenskra túndruvistkerfa á mismunandi kvörðum í tíma og rúmi, með áherslu á hringrásir næringarefna.

Markmið rannsóknarinnar voru einkum að: 1) fylgjast með breytingum í samsetningu samfélaga grasbíta yfir tíma, 2) meta áhrif grasbíta á lífmassa gróðurs, 3) mæla næringarefnainnihald í skít mismunandi grasbítategunda og 4) meta hlutverk grasbíta við dreifingu næringarefna.

Ég greindi langtímagögn til að meta breytingar á stofnum grasbíta og áhrif þeirra á gróður á stærri svæðum. Að auki kannaði ég staðbundin áhrif og landlagsáhrif grasbíta á gróður, næringarefnainnihald í skít þeirra og flutning næringarefna í hálendisvistkerfum með umfangsmikilli vettvangsvinnu árið 2022. Í því fólst að mæla neyslu á ofanjarðarlífmassa gróðurs, magn og næringarefnainnihald í skít heiðagæsa, kinda og hreindýra, ásamt fóðurgæðum á 21 sýnatökustað yfir vaxtartímabilið. Nær-innrauð endurkastsgreining (NIRS) var notuð til að meta næringarefnainnihald í skít þessara tegunda.

Niðurstöður ritgerðarinnar sýna hraðar breytingar í íslenska grasbítasamfélaginu síðustu 40 árin. Hlutfall búfjár (aðallega kindur) sem var ríkjandi áður hefur dregist saman og hlutfall villtra grasbíta hefur aukist, einkum vegna mikillar fjölgunar heiðagæsa. Grasbítar neyttu að jafnaði lítils hlutfalls (4%) af heildarlífmassa gróðurs, en staðbundin neysla náði allt að 30% sums staðar á Austurhálendinu undir lok vaxtartímabilsins. Þrátt fyrir að gæsastofninn neyti minna lífmassa en kindur, lögðu gæsir verulega meira til af næringarefnum í skít, sérstaklega snemma á vaxtartímabilinu þegar næringarefnainnihald skítsins var hæst.

Ekki fannst skýr tenging milli fóðurgæða og neyslu grasbíta, en á svæðum með lág fóðurgæði lagðist hlutfallslega meira til af næringarefnum með skít en á svæðum með hærri fóðurgæði. Þessar niðurstöður varpa ljósi á getu grasbíta til að dreifa næringarefnum um landslag og sýna fram á hlutverk þeirra í mótun túndruvistkerfa í gegnum áhrif þeirra á hringrásir næringarefna, einkum með hliðsjón af þeim hröðum breytingum sem eru að verða á grasbítasamfélaginu  

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image