Doktorsvörn í búvísindum Theódór Kristjánsson: Kynbótaskipulag fyrir eldisþorsk

Miðvikudaginn 28. maí ver Theódór Kristjánsson doktorsritgerð sína í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Kynbótaskipulag fyrir eldisþorsk. Vörnin fer fram í Ásgarði (Ársal) á Hvanneyri og hefst kl. 13.

Aðalleiðbeinandi: Dr. Þorvaldur Árnason, gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
Umsjónarkennari: Dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands

Doktorsnefnd
Dr. Ágúst Sigurðsson, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands
Dr. Þorvaldur Árnason, gestaprófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands
Dr. Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar
Dr. Jónas Jónasson, framkvæmdastjóri Stofnfisks ehf

Andmælendur:
Dr. Anna Sonesson, vísindamaður, NOFIMA – Norwegian Institute of Food, Fisheries and Aquaculture Research
Dr. Snæbjörn Pálsson, prófessor við Háskóla Íslands
Dr. Jóhannes Sveinbjörnsson dósent og deildarforseti auðlindadeildar stjórnar athöfninni

Ágrip:
Ritgerð þessi er samantekt um upphaf þorskakynbóta á Íslandi frá söfnun á erfðaefni í grunnstofn og síðar til mats á erfðastuðlum á mikilvægum eiginleikum í þorskeldi. Söfnun í grunnstofn stóð yfir á árunum 2003 – 2005 þar sem hrognum var safnað úr villtum þorski frá ellefu hrygningarstöðvum í kringum landið. Alls voru búnar til 350 fjölskyldur sem voru notaðar í áframhaldandi kynbætur. Samanburður á vexti og tíðni kynþroska í eldi á þorski, sem átti uppruna sinn frá hrygningarstöðvum fyrir Norður- og Suðurlandi, sýndi ekki marktækan mun í þessum eiginleikum.
Hrognin voru klakin og fyrstu mánuðir eldisins fóru fram hjá Tilraunastöð Hafrannsóknastofnunarinnar að Stað við Grindavík. Eftir 12 mánaða eldi frá klaki voru seiðin flutt í kvíar í Ísafjarðardjúpi og í Berufirði. Gerðar voru reglulegar mælingar á þorskinum allt frá útsetningu til slátrunar. Mat á arfgengi mikilvægra eiginleika sýndi að arfgengi vaxtar er hátt og líklegt má telja að kynbætur fyrir auknum vaxtarhraða muni skila verulegum árangri líkt og raunin hefur verið í laxeldi. Samspil erfða og umhverfis fyrir vöxt í Berufirði og Ísafjarðardjúpi var lágt og ekki líklegt til að hafa áhrif á val á einstaklingum til eldis í framtíðinni. Hins vegar var arfgengi slátureiginleika eins og flakanýtingar og lifrahlutfalls mjög lágt og ekki líklegt að kynbætur muni skila árangri fyrir þessa eiginleika.
Mat á arfgengi á tíðni kynþroska á fyrsta ári í sjókvíum sýndi að tíðni kynþroska hefur mjög háa erfðafylgni við vöxt og sýna niðurstöður að erfitt verður að velja samtímis fyrir lækkun á tíðni kynþroska og auknum vexti. Þróa þarf aðrar aðferðir til að koma í veg fyrir kynþroska á fyrsta ári í sjókvíum.
Í upphafi þorskakynbóta var notast við DNA ætternisgreiningu. Niðurstöður úr ætternisgreiningum og síðar mat á lifun á seiðastigi þorsklirfa leiddu í ljós að lifun er mjög mismunandi á seiðastigi. Áhrif af mismunandi lifun á milli fjölskyldna á kynbótaframför voru prófuð með hermilíkani. Niðurstöður sýndu að verulega dró úr kynbótaframför þegar valið var úr fjölskyldukerfi með mjög mismunandi lifun.

Um doktorsefnið:
Theódór Kristjánsson er fæddur árið 1966. Theódór stundaði nám við Háskóla Íslands 1992 – 1996 og lauk þaðan BS gráðu í líffræði og síðar meistaragráðu í líffræði frá HÍ árið 2004.  Theódór starfar sem verkefnisstjóri hjá Stofnfiski.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image