Bynja Hrafnkelsdóttir skoðar lúpinu. Ljósmynd aðsend.

Doktorsvörn Brynju Hrafnkelsdóttur í skógfræði

Ertuyglur. Brynja skoðaði hvaða áhrif þær og aðrar innlendar skordýrategundir hafa á lúpínu og tré. Ljósmynd Brynja Hrafnkelsdóttir.
Brynja Hrafnkelsdóttir skoðar eitt af rannsóknarsvæðunum. Ljósmynd Brynja Hrafnkel

Brynja Hrafnkelsdóttir ver doktorsritgerð sína í skógfræði, með áherslu á skordýrafræði, við Náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Vörnin fer fram þriðjudaginn 2. júní kl. 13:00. Í ljósi aðstæðna fer vörnin fram á internetinu, í gegnum Zoom fjarfundabúnað. Allir áhugasamir eru velkomnir að tengja sinn inn á vörnina gegnum þennan hlekk. Við biðjum þá sem vilja tengja sig að gera það í síðasta lagi k. 12:50. Jafnframt eru þeir beðnir að slökkva á eigin hljóðnemum á meðan fyrirlesturinn fer fram, en mega gjarnan kveikja á þeim þegar gefið verður færi á spurningum í lok varnarinnar.

Doktorsritgerðin er á ensku með íslensku ágripi og er titill hennar „The interaction between native insect herbivores, introduced plant species and climate change in Iceland“ sem á íslensku er „Samspil á milli innlendra beitarskordýra, innfluttra plantna og loftslagsbreytinga á Íslandi“ Hér má finna nánari upplýsingar um ritgerðina og vörnina.

Brynja er fædd og uppalin á Hrauni í Ölfusi og býr nú í Hveragerði með manninum sínum, tveimur dætrum, ketti, hundi og nokkrum köngulóm. Hún kláraði líffræði í HÍ árið 2005 og hefur unnið á Mógilsá, Rannsóknasviði Skógræktarinnar síðan. Brynja kláraði síðan master í skógfræði við LbhÍ árið 2009 og byrjaði í doktorsnámi 2012.

Þegar Brynja er spurð af hverju hún fór í skógfræði svarar hún:

Ég hef alltaf haft áhuga á náttúrunni en eftir að ég byrjaði sem sumarstarfmaður á Mógilsá árið 2003 þá jókst áhuginn mikið á skógrækt og ekki var verra að fá að tengja það við áhuga minn á skordýrum

Um hvað snýst rannsóknin?

Rannsóknin skiptist eiginlega í tvo hluta. Annars vegar er ég að skoða áhrif loftlagsbreytinga á innlenda skordýrtegund, ertuyglu. Síðan skoða ég líka hvaða áhrif ertuygla og aðrar innlendar skordýrategundir hafa á lúpínu og tré.

Þótt að ertuygla hefur verið hér lengi hefur faraldramynstrið og útbreiðslusvæði hennar verið að breytast og okkur langaði að vita hvort að það tengist breyttu veðurfari. Okkur langaði líka að vita hvaða áhrif þessir miklu faraldar innlendra skordýrategunda á lúpínu hafa á hana. Samfara hlýnun erum við að sjá miklar breytingar á meindýrum á plöntum á Íslandi og mér þótti áhugvert skoða þessar breytingar nánar.

Var eitthvað sem kom á óvart í niðurstöðunum?

Það kom á óvart að vetrarhiti hafði engin áhrif á ertuyglu. Það var líka áhugvert að sjá hvað yngri lúpínan á Hafnamelunum þoldi skordýrabeit betur en eldri lúpínan á Markarfljótsaurunum.

Niðurstöðurnar í þessu doktorsverkefni geta gefið okkur einhverjar vísbendingar hvernig þróunin á skaðvöldum og áhrifum þeirra á plöntur verður í framtíðinni.

Brynja starfar á Mógilsá, Rannsóknasviði Skógræktarinnar við skaðvalda- og vistfræðirannsóknir þar sem nokkur spennandi verkefni eru framundan og verður fróðlegt að fylgjast með þeim í framtíðinni.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image