Heiðrún Sigurðardóttir mun skoða erfðafræðilegan grunn gangtegunda íslenska hestsins í doktorsverkefni sínu við LbhÍ

Doktorsverkefni um erfðafræðilegan grunn gangtegunda íslenska hestsins

Doktorsverkefni Heiðrúnar mun bera heitið Exploring the genetic regulation of ability and quality of gaits in Icelandic horses og mun í grófum dráttum miða að því að auka þekkingu á erfðafræðilegum grunni gangtegunda íslenska hestsins. Með verkefninu stefnir hún að sameiginlegri doktorsgráðu frá Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) og Landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð (SLU), en LbhÍ verður leiðandi aðili í samstarfinu.

Að verkefninu standa ásamt Heiðrúnu, hópur framúrskarandi fræðimanna á sviði erfðafræða og búfjárræktar. Þetta eru Dr. Susanne Eriksson, dósent við SLU, Dr. Gabriella Lindgren, prófessor við SLU, Dr. Marie Rhodin, dósent við SLU, Dr. Elsa Albertsdóttir hjá Bændasamtökum Íslands og Dr. Þorvaldur Kristjánsson, ábyrgðarmaður hrossaræktar og gestalektor við LbhÍ.

Markmið verkefnisins er að veita innsýn í erfðafræðilegan grunn gangtegunda íslenska hestsins; hvaða þættir ráða eða hafa áhrif á ganghæfni og gæði gangtegunda. Í dag erum við einungis á byrjunarreit þegar kemur að því að greina erfðafræðilegan grunn magnbundinna gangeiginleika. Á sama tíma er ekkert hestakyn í heiminum sem býr yfir jafn umfangsmiklum og nákvæmum svipfarsmælingum og íslenski hesturinn. Þar gefst því stórkostlegt tækifæri til að hefjast handa við að vinda ofan af leyndardómum erfðamengis íslenska hestsins á markvissan hátt. Gagnasafn svipfarsmælinganna verður því nýtt til að hefja kortlagningu erfðamengis íslenska hestsins með þremur vandlega hönnuðum rannsóknum sem munu sameina nýjustu erfðatækni og þekkingu á ganghæfni íslenskra hrossa.

Með verkefninu má vænta aukinnar þekkingar á erfðamengi íslenska hestsins. Vísindalegar niðurstöður verða birtar í ritrýndum fræðiritum og markmiðið er að breiða út nýja þekkingu til fræðasamfélagsins, hrossaræktenda og annarra hagsmunaaðila. Til lengri tíma litið geta niðurstöður verkefnisins haft áhrif á úrvalsákvarðanir hrossaræktenda og mögulega leitt til nýrra erfðaprófa fyrir erfðavísum sem hafa marktæk áhrif á hæfileika íslenskra hrossa. Heiðrún er fædd og uppalin í Reykjavík, en rekur upphaf hestaáhugans til sumarvista hjá ömmu sinni og afa sem bjuggu á Hvassafelli undir A-Eyjafjöllum. Hún útskrifaðist með BS gráðu í hestafræðum frá LbhÍ og Háskólanum á Hólum vorið 2012, og hélt svo áfram og tók MS gráðu á búvísindasviði frá SLU sem hún kláraði vorið 2016.

Heiðrún hefur starfað sem alþjóðlegur kynbótadómari FEIF síðan 2015 og stundakennari við LbhÍ síðan 2018, ásamt því að starfa við stjórnsýslu landbúnaðarins hjá Matvælastofnun í fullu starfi síðan 2017. Hún lætur nú af störfum þar og hefur störf hjá LbhÍ við doktorsverkefnið sitt 1. nóvember nk.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image