Dagur íslenskrar náttúru er í dag. Þemað í ár eru vættir sem búa og vaka yfir náttúrunni okkar. Í tilefni dagsins ákváðu starfsmenn LbhÍ hins vegar að snúa þemanu við og minna á svæði sem er á alþjóðlegri verndarskrá votlenda vegna einstakrar fjölbreytni fugla, smádýra og plantna á svæðinu. Það er Ramsar- votlendið sem er allt í kringum LbhÍ á Hvanneyri. Fastagestur innan votlendisins er blesgæsahópur sem er fargestur á Íslandi og stoppar hér á landi í um sex vikur að vori og svo aftur að hausti. Athyglisvert er að svo virðist sem sami hópur blesgæsa komi árvisst á Hvanneyri á meðan annar hópur áir alltaf í Ölfusi. Blesgæsin er alfriðuð í öllum löndum og var friðlandið á Hvanneyri stofnað m.a. vegna þess að blesgæsin stoppar hér til að fita sig fyrir áframhaldandi flug.
Núna um helgina mætti blesgæsin á Hvanneyri á leið sinni frá varpstöðvum á Vestur-Grænlandi til Skotlandi og Írlands þar sem hún dvelur fyrir veturinn. Hún er auðþekkjanleg af hvítri blesu ofan við gogginn. Þá er hún dekkri en grágæsin og heiðargæsin, með dökkar þverrákir á kviðnum. Henni liggur hátt rómur og lætur hún sannarlega í sér heyra á flugi.
Mynd: Jóhann Óli Hilmarsson. Myndin er fengin af Náttúruminjasafns Íslands.