Frá undirritun samskomulagsins í gær. Frá vinstri: Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Daði Már Kristófersson, prófessor og verðandi aðstoðarrektor Landbúnaðarháskólans. MYND/Björn Gíslason

Daði Már í starf aðstoðarrektors

Landbúnaðarháskóli Íslands og Háskóli Íslands undirrituðu í gær samning um að dr. Daði Már Kristófersson, prófessor við Hagfræðideild á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, gegni starfi aðstoðarrektors við Landbúnaðarháskóla Íslands tímabundið út þetta skólaár. Daði Már mun sinna starfinu í 50% starfshlutfalli og áfram gegna 50% starfsskyldum sem prófessor við Hagfræðideild.

Það er mikill fengur fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands að fá Daða Má til starfa sem aðstoðarrektor. Á þessu skólaári er áhersla lögð á gæðamál skólans í kjölfarið á nýrri stefnu sem samþykkt var á síðasta ári. Unnið er að eflingu náms og kennslu og alþjóðlegu og innlendu samstarfi. Þá er undirbúningur að gæðaúttekt Gæðaráðs íslenskra háskóla hafinn og mun Daði Már styðja við nýjar fagdeildir sem eru að fara í gegnum slíka úttekt í fyrsta sinn,“ segir Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, rektor Landbúnaðarháskóla Íslands.

Ég er afar spenntur fyrir því tækifæri að fá að taka þátt í starfi Landbúnaðarháskólans. Ég á marga góða kollega við skólann og ber sterkar taugar til hans enda fyrrverandi nemandi. Ég hlakka til þess að takast á við þetta verkefni. Margar af stærstu áskorunum samtímans eru innan fræðasviðs skólans sem fela í sér miklar áskoranir en einnig mikla sóknarmöguleika,“ segir Daði Már. Daði Már lét af störfum sem sviðsforseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands í sumar eftir að hafa gegnt því embætti í sjö ár.

Landbúnaðarháskóli Íslands er náinn samstarfsskóli Háskóla Íslands. Það er afar gott að þessir samstarfsskólar skiptist á starfsfólki þegar það hentar. Daði Már er reynslumikill fyrrverandi fræðasviðsforseti við Háskóla Íslands. Ég veit að hann mun í hlutastarfi skila góðu starfi sem aðstoðarrektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Ég óska honum og Landbúnaðarháskólanum velfarnaðar,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Fréttin birtist á vef HÍ

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image