Bretar kalla eftir skýrari stefnu í landnýtingarmálum

Skortur verður á landi fyrir landbúnað í Bretlandi eftir fimmtán ár, móti stjórnvöld ekki skýra stefnu í landnýtingarmálum fljótlega. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar vísindamanna við Cambridge háskóla.

Greint er frá niðurstöðunum á vef BBC. Stóra Bretland nær yfir 24 milljónir hektara, þrír fjórðu þess er nýtt undir landbúnað. Samkvæmt skýrslunni er óttast að landrýmið skerðist um tvær milljónir hektara fyrir árið 2030, framleiðsla minnki og að landsmenn verði háðari innflutningi á matvælum en áður. Ástæðurnar eru aukinn fólksfjöldi og meiri áhersla á lífræna ræktun, sem er plássfrekari.

Kallað er eftir skýrari stefnu í landnýtingarmálum. Bretar verði að gera upp við sig hvað þeir vilji gera við landið sitt og það gæti kallað á erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir. Bretar eru sjálfum sér nógir í bygg- og hveitirækt, mjólkurvörum og lamba- og kindakjöti. Þeir þurfa hins vegar að flytja inn talsvert af grænmeti, ávöxtum og svínakjöti. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir að Bretar verði orðnir 70 milljónir árið 2030. Stjórnvöld virðast í framtíðinni staðráðin í því að nýta talsvert land til lífrænnar orkuframleiðslu og það takmarkar matvælaframleiðsluna segir aðalhöfundur skýrslunnar Andrew Montague-Fuller.

Ofan á þetta bætist landbúnaðarstefna Evrópusambandsins, en þar er skýrt kveðið á um skuldbindingu um náttúruvernd. Vegna alls þessa gæti vantað 7 milljón hektara af ræktarlandi til að matvælaframleiðsla haldi í við fólksfjölgun. Skýrsluhöfundar benda einnig á að ýmislegt vegi á móti þessum skorti. Kjötneysla fer minnkandi í Bretlandi og nærri fimmtungur allra matvæla í Bretlandi fer á haugana. Ef hægt væri að nýta matvælin betur lækkaði talan úr sjö milljónum hektara niður í tvær. /Ríkisútvarpið greindi frá.

Frétt BBC um málið.

Skýrsla háskólans í Cambridge.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image