Breskir fléttufræðingar rannsökuðu fléttufungu Vesturlands

Í síðustu viku hafði félag breskra fléttufræðinga (British Lichen Society) aðsetur á Hvanneyri meðan fléttufunga Vesturlands var rannsökuð. Um var að ræða árlega vettvangsferð félagsins og mætti hópur áhugasamra fléttufræðinga til Íslands. Hópurinn samanstóð af 15 Bretum, tveimur Þjóðverjum auk þess sem Silke Werth, nýdoktor við Háskóla Íslands, Starri Heiðmarsson fléttufræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands og gestalektor við LbhÍ og Hörður Kristinsson fléttufræðingur fylgdu hópnum.
Heimsótt voru mismunandi búsvæði fléttna víðsvegar um vestan og suðvestanvert landið, frá Reykjanesi að Snæfellsnesi, tegundir skráðar og skoðaðar á vettvangi auk þess sem sýnum var safnað af athyglisverðum tegundum og þau sýni greind nánar á rannsóknarstofum LbhÍ á kvöldin. Fundust margar athyglisverðar tegundir, margar sem ekki höfðu fundist á Vesturlandi áður auk a.m.k. tveggja tegunda sem fundust í fyrsta skipti á Íslandi en sú tala gæti hækkað þegar erfiðustu sýnin verða rannsökuð nánar á heimavelli sérfræðinganna.

Fléttufunga Íslands telur tæplega 800 tegundir en fléttur eru í raun sambýli a.m.k. tveggja tegunda, svepps og grænþörungs eða blágrænnar bakteríu. Með rannsóknum Harðar Kristinssonar á 7. áratug síðustu aldar tók þekking á fléttufungu Íslands stórt stökk og hefur fjöldi þekktra tegunda aukist jafnt og þétt síðan þá. Líklegt má þó telja að enn hafi ekki allar tegundir fléttufungu landsins uppgötvast og er mikil hjálp í heimsóknum erlendra sérfræðinga við að fylla upp í eyður í þekkingu okkar.
Skipulagning ferðarinnar var í höndum Silke Werth og Starra Heiðmarssonar og vildu þau koma á framfæri þakklæti til Landbúnaðarháskóla Íslands vegna rannsóknaraðstöðunnar sem boðið var uppá og nýttist vel.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image