Um helgina fór fram brautskráning nemenda af garðyrkjubraut LbhÍ, í Hveragerðiskirkju. Dr. Björn Þorsteinsson flutti ræðu og óskaði nemendum velfarnaðar í framtíðinni. Þá flutti Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum og forstöðumaður Starfs- og endurmenntunardeildar LbhÍ, einnig ræðu sem lesa má neðar í fréttinni. Tónlistarflutningur var í höndum Jón Kristófers Arnarssonar, sem lék á gítar, og Einars Clausen, tenórs. Að lokinni athöfn var boðið upp á kaffiveitingar í kennsluhúsnæðinu á Reykjum.
Af garðyrkjubrautum brautskráðust 25 nemendur og hlaut Þröstur Þórsson verðlaun fyrir hæstu meðaleinkunn af garðyrkjubraut. Landbúnaðarháskóli Íslands gaf verðlaun fyrir góðan námsárangur.
Íris Hafþórsdóttir, nemi á garð- og skógarplöntubraut hlaut verðlaun fyrir bestan námsárangur á sinni braut og voru henni afhent verðlaun gefin af Sambandi garðyrkjubænda - Félagi garðplöntuframleiðanda.
Á námsbraut um lífræna ræktun matjurta var Helle Laks veitt verðlaun fyrir góðan námsárangur, gefin af VOR (Verndun og ræktun).
Nemendur af ylræktarbraut hlutu einnig viðurkenningu fyrir góðan námsárangur og var það Samband garðyrkjubænda sem gaf þau verðlaun. Axel Sæland hlaut viðurkenningu úr hópi raunfærnimatsnemenda og Óli Björn Finnsson úr hópi annarra nemenda.
Meðal nemenda af skrúðgarðyrkjubraut voru það Þröstur Þórsson sem hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur úr hópi raunfærnimatsnemenda og Hörður Garðar Björgvinsson úr hópi annarra nemenda.
Nemendur á skrúðgarðyrkjubraut
Nemendur á námsbraut um garðyrkjuframleiðslu
Viktoría Gilsdóttir
Guðríður Helgadóttir
Björn Þorsteinsson, rektor LbhÍ
Ávarp staðarhaldara við útskrift garðyrkjubrauta LbhÍ í Hveragerðiskirkju 28. maí 2016
Rektor, ágætu nemendur, samstarfsfólk, góðir gestir.
Í dag útskrifum við nemendur af garðyrkjubrautum Landbúnaðarháskóla Íslands í sjötta sinn frá stofnun skólans. Þessi myndarlegi hópur garðyrkjunema hefur notað undanfarin tvö ár til þess að mennta sig til starfa í garðyrkjugreinum og heldur nú út á vinnumarkaðinn með hagnýtt nám í farteskinu.
Tvö ár eru stuttur tími sé miðað við eilífðina og það er alltaf jafn ótrúlegt hversu hratt þau fljúga hjá. Það er því mikilvægt að nota tímann vel og fátt er betra en að nýta tímann til þess að fjárfesta í eigin þekkingu. Slík fjárfesting fylgir manni alla ævi og maður nýtur ávaxtanna af henni á hverjum degi.
Skólastarfið undanfarin tvö ár hefur verið með nokkuð hefðbundnu sniði. Staðarnemar og fjarnemar hafa stundað nám sitt af kappi og eljusemi og uppskeran er í samræmi við það sem sáð var til. Segja má að lokahnykkurinn í skólastarfinu hafi verið lokaverkefni nemenda sem unnið hefur verið að meira og minna í vetur. Vinnan við lokaverkefnin endurspeglar þá fjölbreyttu þekkingu sem nemendur hafa öðlast í námi sínu og þjálfar nemendur í að tengja saman þekkingu úr mismunandi áföngum í náminu. Er skemmst frá því að segja að vinnan við lokaverkefnin gekk vel og voru niðurstöðurnar kynntar á kynningardögum nú í maí. Kennarar eru ánægðir með árangur nemenda, þessi hópur hefur sýnt það og sannað að hann er tilbúinn til að takast á við veruleikann í garðyrkjufaginu að námi loknu.
Garðyrkjan er um margt dálítið sérstakt fag og ég vil meina að það séu ákveðin líkindi milli garðyrkju og hestamennsku. Í báðum tilfellum er um að ræða fag sem annars vegar er áhugamál fjölda fólks um allt land og hins vegar atvinnugrein sem skapar samfélaginu mikil verðmæti, verðmæti sem ekki eru alltaf mæld í krónum og aurum. Oft á tíðum er erfitt fyrir leikmenn að gera sér grein fyrir því hver munurinn sé á áhugamálinu og atvinnumennskunni því það er einnig svo að margur atvinnumaðurinn starfar jafnframt við áhugamál sitt. Við sem lifum og hrærumst í atvinnugreininni erum hins vegar alveg með þessi mörk á hreinu og það er okkar að starfa að faginu af trúmennsku og hafa fagmennskuna alltaf að leiðarljósi. Það er á okkar ábyrgð að tala um garðyrkjufagið, fagið okkar, af virðingu og sýna samfélaginu að við séum stolt af menntun okkar og störfum. Við sköpum ímynd okkar sjálf með ummælum okkar og gjörðum.
Undanfarin ár hefur garðyrkjan á Íslandi notið sívaxandi vinsælda og það eru forréttindi að upplifa að garðyrkjufagið hafi náð þeim vinsældum sem við finnum fyrir í dag. Eftirspurn eftir garðyrkjunámi hefur sjaldan verið meiri og það er okkur sérstakt ánægjuefni. Stóraukinn fjöldi ferðamanna á Íslandi kallar einnig á fleiri hendur í garðyrkjuna. Í fyrsta lagi þarf aukna framleiðslu innlendra matvæla og þar leikur íslenskt grænmeti lykilhlutverk. Til að framleiða gæðavöru þarf þekkingu á framleiðslu við íslenskar aðstæður, þekkingu sem nemendur okkar hafa aflað sér í náminu undanfarin ár. Í öðru lagi þarf að tryggja að umhverfi okkar sé okkur til sóma og bjóði þessa erlendu gesti velkomna. Slíkar framkvæmdir kalla á plöntur sem þola íslenskar aðstæður og fólk sem kann til verka við uppbyggingu og mótun grænna og grárra svæða. Duglegur garðyrkjufræðingur þarf ekki að óttast atvinnuleysi.
Nemendur okkar fá menntun sem er sérsniðin að íslenskum aðstæðum. Umhverfi fagsins er ekki það sama hérlendis og í nágrannalöndum okkar og ákaflega mikilvægt að afla, halda til haga og miðla þekkingu á sérkennum íslenskrar garðyrkju. Þar njótum við þess meðal annars að vera hluti af háskólasamfélagi LbhÍ sem stundar rannsóknir á nýtingu íslenskra náttúruauðlinda með sjálfbærum hætti og er sterkt faglegt bakland garðyrkjumenntunar. Nýtt námsefni á íslensku styrkir nemendur okkar enn frekar í námi og hafa kennarar skólans þar unnið þrekvirki á undanförnum árum. Nemendur okkar eru besta auglýsing skólans um gæði námsins enda eru þeir eftirsóttur starfskraftur á vinnumarkaði.
Skólastarf þarf að vera í stöðugri endurskoðun til að standast þær síbreytilegu kröfur sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Árgangurinn sem útskrifast nú í vor er sá fyrsti sem stundar nám eftir nýrri námskrá garðyrkjubrauta, námskrá sem unnin var í nánu og þéttu samstarfi skólans við atvinnulíf viðkomandi brauta. Það er einmitt þetta samstarf við atvinnulífið sem skólinn er ákaflega stoltur af og margar aðrar faggreinar líta til þessa nána samstarfs með löngunaraugum, staðan er ekki svona góð alls staðar.
Kennarar skólans meta það svo að kennsla eftir nýju námsskránni hafi gengið vel og eru almennt ánægðir með þær nýjungar sem nú var boðið upp á. Meðal annars var nú í fyrsta sinn á Íslandi boðið upp á námsbraut í lífrænni ræktun matjurta en það er í fyrsta sinn sem boðið hefur verið upp á formlegt nám í lífrænum ræktunaraðferðum á Íslandi.
Í hópi útskriftarnemenda í dag er jafnframt myndarlegur hópur nemenda í ylrækt og skrúðgarðyrkju sem komu inn í skólann í gegnum svokallað raunfærnimat og er það í fyrsta sinn sem skólinn tekur við nemendum í gegnum það kerfi. Raunfærnimatsnemendur okkar hafa komið inn í námið með umfangsmikla reynslu úr faginu, þeir hafa verið fúsir til að deila reynslu sinni með öðrum nemendum og skapað þannig enn dýpri og faglegri umræðu í kennslustundum.
Í sumar verður kosið til embættis forseta Íslands. Í framboði eru dugmiklir einstaklingar sem allir telja sig hafa það sem til þarf til að ná kjöri og taka við forystu á Bessastöðum. Hver og einn hyggst setja sinn persónulega svip á starfið en þó innan þeirra marka sem lög og reglur ákvarða. Kæru nemendur. Nú eruð þið komin í framboð til embættis garðyrkjufræðings á vinnumarkaði. Þið þurfið að nýta þekkingu ykkar til að koma ykkur áfram í kosningabaráttunni, skapa ykkur orðspor sem fagmenn, viðhalda kunnáttunni og höndla þá ábyrgð sem fylgir því að vera fullgildur garðyrkjufræðingur því þetta framboð er ævilangt.
Í dag er mikilvægum áfanga náð, þið hafið lokið bóklegu námi í garðyrkju. Að mínu mati er þessi gleðistund alltaf svolítið tregablandin, dvöl ykkar á Reykjum er lokið í bili og þið haldið út í lífið með prófið upp á vasann, bros á vör og allt er mögulegt. Gleymið því þó ekki að þar sem þið eruð í ævilöngu framboði þá munum við vonandi sjá ykkur sem oftast í framtíðinni í endurmenntun eða jafnvel á öðrum brautum skólans.
Ég vona að dvölin hér við skólann hafi vakið fleiri spurningar en svör hafa fengist við, ef svo er þá tel ég að vel hafi tekist til við menntun ykkar. Það er þroskamerki þegar maður uppgötvar hvað maður kann í raun lítið og sumir segja að þá fyrst sé maður tilbúinn til að hefja lærdóminn. Ég vona að sú menntun sem þið hafið öðlast hér, dvölin við skólann og samneyti við aðra nemendur og kennara verði ykkur gott veganesti. Þið eruð fagmennirnir núna og eigið því að hafa fagmennsku að leiðarljósi í öllum ykkar störfum. Hafið það einnig hugfast að svo lifir sem lærir og þetta er ekki endastöð garðyrkjumenntunar. Vonandi sjáum við sem flest ykkar í framhaldsnámi við skólann í náinni framtíð.
Kæru nemendur. Þetta er dagurinn ykkar. Hjartanlega til hamingju.