Hallfríður Guðmundsdóttir ver meistararitgerð sína Borgarfjallið Esja - Útivistarsvæði við borgarmörk, við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Vörnin fer fram kl. 14 miðvikudaginn 4. júní í húsakynnum skólans á Keldnaholti. Í lok athafnar verður boðið upp á kaffi. Prófdómari er Hrafnkell Á. Proppé svæðisskipulagsstjóri á höfuðborgarsvæðinu. Leiðbeinendur eru Sigríður Kristjánsdóttir PhD. námsbrautarstjóri meistaranáms í skipulagsfræði við LbhÍ og Nína Rós Ísberg PhD. mannfræðingur og Samson B. Harðarsonlektor við LbhÍ. Athöfninni stjórnar Hlynur Óskarsson deildarforseti umhverfisdeildar LbhÍ.
Borgarfjallið Esja -Útivistarsvæði við borgarmörk
Í útdrætti segir: Breyttur lífsstíll og vitundarvakning um mikilvægi útivistar og hreyfingar fyrir bætta lýðheilsu hefur á undanförnum árum haft í för með sér aukna notkun á útivistarsvæðum við höfuðborgarsvæðið. Borgarfjallið Esja er eitt af þeim svæðum en erfitt er að meta til fulls þá kosti sem svæðið hefur og því er hætta á að litið verði framhjá þeim í skipulagi og meiri hagsmunum mögulega fórnað fyrir minni.
Mikilvægt er að sveitarfélög kortleggi þau tækifæri sem felast í gæðum útivistarsvæða við borgarmörk og marki sér stefnu um nýtingu þeirra í samráði við aðra aðila sem svæðinu tengjast. Þannig má nýta betur þau verðmæti sem í svæðunum felast og styðja við nauðsynlegt viðhald þeirra og uppbyggingu.
Helstu markmið með athuguninni eru að greina notkun athugunarsvæðis sunnan við Esju með spurningakönnun og djúpviðtölum. Með því er ætlunin að draga betur fram kosti þess að borgarbúar hafi aðgang að útivistarsvæðum við borgarmörk og efla um leið þekkingu á notkun og viðhorfi notenda. Verkefnið leiddi í ljós að notendur sækjast eftir að upplifa náttúruna og að komast á útivistarsvæði í nálægð við höfuðborgarsvæðið. Flestir fara sömu leiðina upp fjallið þrátt fyrir fjölbreytt stígakerfi og fáir notendur taka börn með. Þá kom einnig fram að ásókn er í svæðið til annarra nota og að sú notkun gæti sett í hættu þau gæði sem núverandi notendur eru að sækjast eftir. Í lokin er komið með hugmynd að skipulagi fyrir svæðið en mikilvægt er að endanlegt deiliskipulag sé unnið í náinni samvinnu allra hagsmunaaðila til að það mynda sátt og skilning um ákvörðunartöku.