Berglind Sigurðardóttir ver meistararitgerð við umhverfisdeild LbhÍ

Fimmtudaginn 19. desember ver Berglind Sigurðardóttir meistararitgerð sína við umhverfisdeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Vörnin fer fram kl. 15.00 í húsakynnum skólans á Keldnaholti. Í lok athafnar verður boðið upp á kaffi.

Ritgerð Berglindar heitir Miðbær á faraldsfæti - Íbúakönnun og greining svæða í Hveragerði –. Aðalleiðbeinandi er Sigríður Kristjánsdóttir og meðleiðbeinandi Sólveig Helga Jóhannsdóttir. Prófdómari er Bjarki Jóhannesson.

Háskóli Íslands

Miðbær er þungamiðja sérhvers bæjarfélags. Miðbærinn er andlit bæjarins og mikilvægur þáttur í ímynd hans. Meginmarkmið verkefnisins var að skoða hvar miðbær Hveragerðis er í hugum íbúa og skoða félagslegt atferli fólks í miðbænum með kenningar arkitektsins Jan Gehl að leiðarljósi.

Verkefnið var tvíþætt. Í fyrsta lagi var send út spurningakönnun á úrtak Hvergerðinga 15 ára og eldri, með það að markmiði að staðsetja miðbæ Hveragerðis. Í öðru lagi var unnin atferlisgreining á tveimur svæðum í bænum, en þau voru valin út frá niðurstöðum könnunarinnar. Atferlisgreiningin byggir á atferlisrannsóknum Jan Gehl í Kaupmannahöfn árið 2003 og Stokkhólmi árið 1990 (Gehl, J. 2006). Að lokum voru settar fram tillögur um hvernig bæta megi miðbæinn og efla þannig bæjarmynd Hveragerðis.

Gamla bæjarmiðjan í Hveragerði var við enda Breiðmerkur þar sem Þinghúsið og Mjólkurbúið stóðu. Árið 2004 var byggð verslunar- og þjónustumiðstöð við þjóðveginn að Sunnumörk 2. Með tilkomu hennar virðist sem stóru verslunarkeðjurnar dragi miðbæinn niður eftir Breiðumörk. Nú er Breiðumörk hönnuð fyrir bifreiðar með mörgum bílastæðum. Til að efla mannlíf í Hveragerði þarf göturýmið einnig að vera hannað fyrir fólk. Íbúar og ferðamenn þurfa að geta unað sér vel við götuna, gengið eða hjólað í rólegheitum, staldrað við, myndað tengsl og hvílt sig. Í góðu og vel skipulögðu umhverfi myndast vettvangur fyrir fjölbreytt mannlíf og möguleikar á mannlegum samskiptum skapast. Með bættu skipulagi aukast valfrjálsar athafnir þar sem svæðið og aðstæður gefa fólki tækifæri til að staldra við, setjast, borða og njóta lífsins. Á götum og í borgarrýmum sem eru illa skipulögð flýtir fólk sér frekar heim. Torg og framhliðar húsa hafa áhrif á gæði svæða og eru stór þáttur í upplifun gangandi vegfarenda um borgir.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image