Bætt nýting sláturafurða og lækkun sótspors

Landbúnaðarháskóli Íslands og Sláturhús Vesturlands eru í tilraunaverkefni ásamt H-veitingum sem m.a. þjónustar mötuneyti starfsstöðvar skólans á Hvanneyri. Verkefnið snýr að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi í framleiðslu kjöts og aukaafurða í smærri stíl, bættri nýtingu sláturafurða og, mati á gæðum afurða og lágmörkun sáturúrgangs. Verkefnið hefur farið vel af stað og neytendur þegar farnir að njóta afurðanna.

Forréttindi að bjóða upp á þetta dýrindis hráefni
„Það er okkur sönn ánægja og mikill heiður hjá H veitingum að fá að vinna með það úrvalskjöt og hráefni sem við fáum frá búunum Hesti og Hvanneyrarbúi. Lambið og nautið eru bæði fyrsta flokks og forréttindi að bjóða upp á þetta dýrindis hráefni í okkar mötuneytum beint frá búi. Viðbrögð nemenda, starfsfólks og annarra gesta er frábær og mikill ávinningur fyrir okkur og vonandi búin líka. Við erum svo að vinna með allan skrokkinn og gaman að bjóða upp á djúpsteikta hóstakirtla af lambinu og hægeldaðar nautakinnar svo dæmi séu tekin," segir Hendrik Hermannsson eiganda H veitinga sem m.a. rekur mötuneyti LbhÍ á Hvanneyri.

Nýta afurðir sauðfjárbús skólans í mötuneyti
Gerðar hafa verið tilraunir með nýtingu afurða frá tilraunasauðfjárbúi skólans á Hesti en þar voru í haust sendir gripir til slátrunar hjá Sláturhúsi Vesturlands í Borgarnesi. H-veitingar hafa síðan hanterað hráefnið og boðið fram m.a. í mötuneyti Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Síðastliðinn föstudag var boðið uppá kótelettur í raspi sem vakti mikla lukku meðal neytenda. Landbúnaðarháskóli Íslands vinnur að rannsóknum og kennslu á sviði búfræði og bústjórnar og rekur sauðfjárbú á Hesti og kúabú á Hvanneyrarbúinu sem eru nýtt til kennslu og rannsókna. Landbúnaðarháskólinn mun með sinni aðkomu leggja mat á möguleikana sem í þessu felast, þ.e. að auka nýtingu sláturafurða, gæði þeirra og minnkun sláturúrgangs. Með þessu getur Landbúnaðarskólinn lagt sitt af mörkum til  rannsókna og nýsköpunar á þessu sviði og eflt samstarf á sviði rannsókna og nýsköpunar í sínu nærsamfélagi. Sérstaklega er horft til að verkið nýtist til frekari þróunarvinnu á vegum aðilana til framtíðar.

Nýsköpun í nýtingu sláturafurða, kjötskurði og matreiðslu
Hér er um er að ræða pilot verkefni sem miðar að því að koma afurðum skólabúanna hjá Landbúnaðarháskóla Íslands á markað með sem minnstum tilflutningum og tilkostnaði frá búi í sláturhús og frá sláturhúsi í mötuneyti skólans á Hvanneyri þar sem afurðirnar verða nýttar. Matreiðslumeistarar LbhÍ munu koma með tillögur að nýjum leiðum til að nýta innmat til að draga úr sláturúrgangi og beita nýjum leiðum í kjötskurði. Lagt verður mat á árangur og hagkvæmni og leiðir til skilvirkrar nýtingar á afurðum frá búunum.

Mikilvægt fyrir alla að vita hvaðan maturinn kemur
„Ávinningurinn af samstarfi sláturhússins og Landbúnaðarháskóla Íslands um slátrun og nýtingu afurða í nærsamfélagi er margþættur. Það er mikilvægt fyrir alla að vita hvaðan maturinn kemur og það er mikilvægt fyrir sláturhúsið að eiga samstarf við Landbúnaðarháskólann, þar sem þekking á öllum sviðum matvælaframleiðslu og umhverfismála er fyrir hendi,“ segir Eiríkur Blöndal frá Sláturhúsinu Vesturlands í Borgarnesi.
„Landbúnaðarháskólinn sýnir með þessu í verki að hann er tilbúinn að vinna með aðilum sem leitast við að auka verðmæti sinna afurða og stuðla að aukinni atvinnusköpun heima fyrir.  Þeir bændur sem hafa fetað þennan veg, það er að segja að selja sínar afurðir sjálfir hafa samt mætt ýmsum hindrunum, ekki síst markaðslegum hindrunum.  Það er þannig til dæmis ekki eðli stórmarkaða að leita afurða úr nærsamfélagi, þar ræður verðið og framlegð smásölunnar. Vaxandi fjöldi fólks gerir samt nú á dögum meira en meðal kröfur til uppruna matvæla, þetta fólk mætir hinum ýmsu merkingum og vottunum sem erfitt getur verið að átta sig á. Aukinn tengsl bænda og neytenda eins og við vinnum hérna að geta þarna komið til hjálpar og hvar finnur maður sannari framleiðendur og neytendur en í Landbúnaðarháskólanum?  Gestir mötuneytis Landbúnaðarháskóla Íslands munu fljótt átta sig á hverjum þeir eiga að þakka fyrir matinn!“

Bændur leitast við að markaðssetja sínar kjötafurðir sjálfir
Þeir sem hafa hag af þessu verkefni eru bændur sem leitast við að markaðssetja sínar kjötafurðir sjálfir, þar á meðal bændur á Vesturlandi. Nýsköpunargildið er að auka verðmæti afurða, en eins og nýlegar skýrslur sýna er afurðaverð undir framleiðslukostnaði bæði í nauta- og kindakjöti og því ærið tilefni til aðgerða. Sláturhús Vesturlands hefur sérstakan hag af því að minnka kostnað við förgun úrgangs en sá kostnaður er fyrirtækinu mjög íþyngjandi. Fjölmargir bændur hafa náð árangri í að selja sínar kjötafurðir sjálfir. Það eru hins vegar fjölmargar hindranir sem þarf að yfirstíga ef feta á þá leið.

Stuðla að aukinni verðmætasköpun í landbúnaði
Áshildur Bragadóttir nýsköpunar- og þróunarstjóra hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og verkefnisstjóra samstarfsverkefnisins segir að Landbúnaðarháskóli Íslands hafi sett sér þá stefnu að stuðla að aukinni verðmætasköpun í landbúnaði og matvælaframleiðslu og fæðuöryggi til framtíðar með sjálfbærri nýtingu auðlinda.
„Aukin áhersla er á rannsóknir og nýsköpun og samstarf við breiðan hóp hagaðila á því sviði. Hér hafa aðilar í nærsamfélagi skólans tekið höndum saman um að leita leiða til að auka nýtingu sláturafurða, gæði þeirra og minnkun sláturúrgangs. Sérstaklega er horft til þess að verkefnið nýtist til frekari þróunarvinnu og höfum við fengið tvo styrki til verkefnisins sem sýnir þann ávinning sem af samstarfsverkefni með atvinnulífi og samfélagi getur leitt af sér. Í farvatninu er að Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskóli Íslands stofni Nýsköpunar- og þróunarsetur á Vesturlandi sem mun efla enn frekar samstarf á þessu sviði,“ segir Áshildur. 

 

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframsleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image