Anna Guðrún Þórðardóttir ver meistararitgerð sína í búvísindum: Erfðastuðlar júgur- og spenaeiginleika íslenska kúastofnsins við deild Ræktunar & Fæðu við Landbúnaðarháskóla Íslands.
Leiðbeinandi Önnu Guðrúnar er Dr. Egill Gautason, búfjárerfðafræðingur og lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Prófdómari er Dr. Elsa Albertsdóttir, erfða og kynbótafræði.
Meistaravörnin fer fram 24. maí 2023 kl 10:00 í Sauðafelli 3. hæð, Keldnaholti Reykjavík. Vörninni verður einnig streymt á Teams og er hlekkur hér. Mikilvægt er að vera kominn inn tímanlega og hafa slökkt á hljóðnema.
Ágrip
Júgurjafnvægi, júgurfestu, júgurbandi, júgurdýpt, spenagerð, spenalengd, spenaþykkt, spenastöðu og spenaoddi íslenskra kúa hefur verið lýst á línulegum dómskala frá 1996. Júgur og spenar vega nú 20% í kynbótaeinkunn stofnsins, en júgurjafnvægi, spenagerð og spenaoddur eru þar ekki hluti af kynbótamatsútreikningum. Helstu markmið þessa verkefnis voru að lýsa júgur- og spenabyggingu íslenskra kúa, að meta erfðastuðla allra dæmdra júgur- og spenaeiginleika, að skoða erfðaþróun þeirra, og að rýna til gagns núverandi kynbótamatsútreikninga júgurs og spena. Júgur- og spenaeinkunnir 76.628 íslenskra kúa lágu verkefninu til grundvallar. Erfðastuðlar voru metnir með línulegum tvíbreytu líkönum. Núverandi erfðalíkan var borið saman við fjögur önnur erfðalíkön sem leiðréttu fyrir mismunandi föstum- og slembihrifum. Fylgni á milli júgur- og spenaeiginleika, erfðafylgni eiginleikanna á fyrsta og öðru mjaltaskeiði, sem og fylgni þeirra við frumutölu var reiknuð. Kynbótagildi júgur- og spenaeiginleika voru metin, og erfðaþróun eiginleikanna var skoðuð.
Svipfarsbreytileiki júgur- og spenaeiginleika var lítill þar sem yfir helmingur kúa hlýtur sömu einkunn fyrir júgurjafnvægi, spenagerð, spenaþykkt, spenastöðu og spenaodd. Arfgengi eiginleikanna var á bilinu 0,11 til 0,36, lægst fyrir júgurjafnvægi og júgurband, en hæst fyrir spenalengd. Fylgni á milli júgur- og spenaeiginleika var hagstæð, þar sem eftirsóttir eiginleikar fylgdust að. Fylgni júgur- og spenaeiginleika við frumutölu var hagstæð, þar sem kýr með afturþung júgur, lélega júgurfestu, slakt júgurband, mikla júgurdýpt, langa, þykka og gleitt setta spena höfðu hærri frumutölu á fyrsta mjaltaskeiði. Erfðafylgni júgur- og spenaeiginleika milli fyrsta og annars mjaltaskeiðs var á bilinu 0,63 til 0,86, en kýr á öðru mjaltaskeiði höfðu alla jafna slakari júgur- og spenabyggingu heldur en kýr á fyrsta mjaltaskeiði. Erfðaframfarir hafa orðið í júgurfestu, júgurbandi, júgurdýpt og spenalengd, en lítil sem engin erfðaþróun hefur átt sér stað fyrir júgurjafnvægi, spenagerð, spenaþykkt, spenastöðu og spenaodd.
Í núverandi mynd gera línulegir kúadómar lítinn greinarmun á milli undaneldisgripa þegar kemur að júgurjafnvægi, spenagerð, spenaþykkt, spenastöðu og spenaoddi. Af þeim sökum mælist arfgengi þessara eiginleika lágt, og sýnir lítil erfðaþróun þeirra að úrval hefur borið lítinn árangur. Leita þarf því leiða til að auka dreifingu einkunna, en fyrir spenastöðu er lagt til að besta einkunn línulega dómskalans sé færð frá 5 til 7 og gefa þannig aukið svigrúm til að greina á milli gripa með gleitt setta spena. Við kynbótamatsútreikninga er lagt til að leiðrétt verði fyrir árlegum slembihrifum hjarðar og dómara, föstum hrifum hjarðar á fimm ára tímabili, dómara, stöðu mjaltaskeiðs við dóm, og aldri kúa við fyrsta burð. Með þessum leiðréttingum verður breyting á röðun einstaklinga innan stofnsins. Mælt er með því að taka upp kúadóma á öðru mjaltaskeiði jafnt sem því fyrsta, og meta kynbótamat fyrir bæði mjaltaskeið svo velja megi fyrir júgur- og spenabyggingu sem endist á milli mjaltaskeiða.