Ályktun Búnaðarþings 2018 um LbhÍ

Búnaðarþing Bændasamtaka Íslands fór fram þann 6. mars sl.. Þingið ályktaði eftirfarandi um Landbúnaðarháskóla Íslands:

Vísinda- og rannsóknastarf í landbúnaði

Markmið
Að styrkja samkeppnishæfni íslensks landbúnaðar með öflugra vísinda-, mennta- og rannsóknastarfi í greininni. Ályktun Búnaðarþings 2016 um landbúnaðarháskóla er ítrekuð.

Leiðir
Að unnin verði vönduð sérstöðu greining fyrir landbúnaðinn í heild þar sem jafnframt verði kortlagt hvar þörfin er mest á rannsókna- og þróunar starfi. Að landbúnaðarháskólunum í landinu verði tryggt nægilegt fjármagn til að starfrækja öflugt rannsóknarstarf, þ.m.t. með rekstri tilrauna- og kennslubúa í búfjár- og jarðrækt. Áhersla verði lögð á hagnýtar landbúnaðarrannsóknir. Að komið verði á sérstökum vísindasjóði landbúnaðarins til þess að efla rannsókna- og þróunarstarf, auka virði afurða og búa til fleiri hvata fyrir nemendur til að afla sér framhaldsmenntunar á sviði landbúnaðar. Unnið verði að fjármögnun í samvinnu samtaka bænda, stjórnvalda og fyrirtækja í landbúnaði til dæmis með því að láta tolltekjur renna í sjóðinn. Umsýsla sjóðsins verði í höndum Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Að vönduð haggögn verði gefin út árlega fyrir helstu búgreinar.

Framgangur
Stjórn BÍ er falið að vinna málunum framgang. Tillögur að fjármögnun vísindasjóðs verði tilbúnar við endurskoðun búvörusamninga 2019.

Ályktanir Búnaðarþings 2018.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hélt ræðu við upphaf Búnaðarþings þar segir hann um Landbúnaðarháskólann:

„Öflug menntun er mikilvægur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar. Því lagði ég í tíð minni sem menntamálaráðherra ríka áherslu á að það væri eitt stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar að efla Landbúnaðarháskóla Íslands. Mikilvægt er að styrkja grunnnám og tengja skólann við aðrar menntastofnanir og fyrirtæki innanlands og erlendis. Auka þarf fjármagn til hagnýtra verkefna í rannsóknum tengdum virðisaukningu landbúnaðarafurða. Þá er í mínum huga eitt mikilvægasta verkefni næstu ára á þessum vettvangi að styrkja samstarf skólans við bændur og aðra matvælaframleiðendur.

Tryggja að bændur miðli sinni dýrmætu þekkingu og reynslu og um leið að skólinn sýni í verki að hann er að vinna fyrir bændur og byggðir landsins. Meðal annars með því að færa rannsóknir að hluta í sveitirnar. Ég veit að hér skortir ekki vilja til samstarfs, en það þarf hugsanlega að koma þessu samstarfi í markvissari farveg.“

Ræða sjávarútvegs- og landbúnaðaráðherra í heild sinni á Búnaðarþingi 2018.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image