Ragnheiður I Þórarinsdóttir og Paul Ramsak fulltrúi GEOTHERMICA opna formlega og með táknrænum hætti tilraunaaðstöðuna í Bleiswijk við hátíðlega athöfn.

Alþjóðlegt samstarf um nýtingu jarðvarma í hringrásarframleiðslu matvæla

Ragnheiður I Þórarinsdóttir og Paul Ramsak fulltrúi GEOTHERMICA opna formlega og með táknrænum hætti tilraunaaðstöðuna í Bleiswijk við hátíðlega athöfn.

Um síðustu mánaðamót var formleg opnun nýrrar tilraunaaðstöðu við Wageningen háskólann í Bleiswijk í Hollandi þar sem 150 m2 fiskeldiskerfi var komið fyrir í gróðurhúsum skólans. Tilraunaaðstaðan er byggð upp sem hluti af þróunarverkefninu GeoFood sem er nýsköpunarverkefni styrkt er af Geothermica samstarfsneti um nýtingu jarðvarma.

Markmið verkefnisins er að hvetja til þess að auka beina notkun jarðvarma til matvælaframleiðslu og stuðla að hringrásarkerfum með bættri nýtingu orku, næringarefna og vatns. Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskólans hafði frumkvæði að verkefninu GeoFood.

“Með línulegum framleiðslukerfum er verið að framleiða úrgang sem hleðst upp og mengar umhverfið okkar. Aukinn áhugi er á hringrásarkerfum þar sem úrgangur úr einum þætti kerfisins nýtist sem hráefni í þann næsta. Auk þess hefur áhugi á beinni nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu aukist mjög á undanförnum árum, ekki síst vegna ötullar vinnu jarðvarmasérfræðinga frá Íslandi og GEORGs jarðvarmaklasans sem leiðir GEOTHERMICA samstarfið, en GEORG hefur átt sinn þátt í því að Evrópusambandið hefur aukið framlag sitt til rannsókna- og nýsköpunarverkefna á sviði jarðvarmanýtingar”, segir Ragnheiður.

GeoFood verkefnið sameinar þetta tvennt, skilvirka nýtingu jarðvarmans og hringrásarframleiðslu, og er mikill áhugi í Hollandi og Slóveníu á því að auka nýtingu jarðvarma til matvælaframleiðslu m.a. í gróðurhúsum og er sú vinna þegar hafin. Við opnunina í Bleiswijk kom fram að aukin nýting jarðvarma í gróðurhúsum í Hollandi væri ein forsenda áframhaldandi uppbyggingar greinarinnar. Rúmlega 20 manna hópur garðyrkjumanna og sveitarstjórnarfulltrúa frá Slóveníu tóku þátt í fundinum. Tvö gróðurhús í Slóveníu nýta jarðvarma til upphitunar og unnið er að kortlagningu tækifæra til frekari uppbyggingar þar í landi. Ljóst er að hér eru mikil tækifæri til áframhaldandi samstarfs milli landanna þar sem reynslan hérlendis af nýtingu jarðvarmans til garðyrkju, fiskeldis og annarrar matvælaframleiðslu s.s. þurrkunar getur nýst samstarfsaðilum okkar á sama hátt og við getum haft hag af tækniþekkingu samstarfslandanna og markaðstækifærum þar.

 

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image