Dr. Alexander Schepsky hefur verið ráðinn nýr framkæmdastjóri Gleipnis – Nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi. Alexander er með bakgrunn í sameindalíffræði, hann hlaut doktorsgráðu sína frá Háskóla Íslands og stundaði postdoc rannsóknir við Marie Curie rannsóknarstofnunina í Bretlandi. Rannsóknir hans hafa verið birtar í fjölmörgum vísindatímaritum eins og Nature og Molecular Cell. Auk akademíska ferilsins hefur hann einnig verið virkur á sviði nýsköpunar. Samhliða því sem hann byggði upp sitt eigið innflutningsfyrirtæki með rannsóknarvörur og efnum fyrir sameindalíffræði, starfaði hann fyrir sprotafyrirtækin ORF Genetics, Zymetech á Íslandi og faCellitate í Þýskalandi. Alexander hefur undanfarið starfað hjá fyrirtækinu „The Cultivated B“ í Þýskalandi þar sem hann var yfirmaður alþjóðlegrar sölu á sviði frumulandbúnaðar eða „cellular agriculture“.
„Ég hlakka mikið til að hefja störf hjá Gleipni og taka þátt í nýsköpun og þróun á Vesturlandi. Að mínu mati býður Vesturland upp á óteljandi möguleika til nýsköpunar og koma hugmyndum og draumum í framkvæmd, hvort sem það er í landbúnaði, matarnýjungum, ferðaþjónustu eða einhverju allt öðru. Mér finnst sérstaklega spennandi að vinna að því að nýta betur samspil hreinnar orku og hátækni og þróa áfram sjálfbæra matvælaframleiðslu til að tryggja fæðuöryggi og samkeppnishæfni Íslands.“