Tilgangur verkefnisins er að styrkja samkeppnisstöðu svæðanna og hjálpa sveitarfélögum við að þróa tæki sem geta nýst þeim við að draga úr hagsmunaárekstrum og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda á svæðunum í góðu jafnvægi við náttúruvernd.

Landbúnaðarháskóli Íslands stýrir alþjóðlegu verkefni um skipulag strandsvæða sem styrkt er af Norðurslóðaáætluninni.

Í lok mars var haldinn “kickoff” fundur í nýju verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins, Northern Periphery and Arctic Programme (NPA). Fundurinn átti að fara fram í Cork á Írlandi en vegna COVID-19 varð hann að fjarfundaráðstefnu.

Landbúnaðarháskóli Íslands stýrir nýju alþjóðlegu verkefni Sustainable Resilient Coasts (COAST) sem fjallar um þróun og skipulag strandsvæða og er styrkt af NPA.  Samstarfsaðilar eru Oulu University of Applied Sciences, Finnlandi, University College Cork og Mayo County Council, Írlandi og Causeway Coast and Glens Heritage Trust, Norður-Írlandi. Þróun strandsvæða á Norðurslóðum er mikilvægt viðfangsefni fyrir Ísland og nágrannaþjóðir okkar. Tilgangur verkefnisins er að styrkja samkeppnisstöðu svæðanna og hjálpa sveitarfélögum við að þróa tæki sem geta nýst þeim við að draga úr hagsmunaárekstrum og stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda á svæðunum í góðu jafnvægi við náttúruvernd.

NPA

Norðurslóðaáætlunin (NPA) er atvinnu- og byggðaþróunarsjóður samstarfslandanna og spannar samstarfssvæðið norðurhéruð Noregs, Svíþjóðar, Finnlands, Skotlands, Írlands ásamt Norður-Írlandi, Færeyjum, Grænlandi og Íslandi. Áætluninni er ætlað að stuðla að samstarfsverknum sem miða að því að finna lausnir á sameiginlegum viðfangsefnum s.s. að efla nýsköpun og hvetja til frumkvöðlastarfs, hlúa að orkuöryggi og stuðla að sjálfbærri þróun og varðveislu náttúru, samfélags og menningararfs. Byggðastofnun hefur umsjón með þátttöku Íslands í áætluninni.

Skipulag haf og strandsvæða

Haf- og strandsvæði á Norðurslóðum búa yfir verðmætum náttúruauðlindum og –gæðum. Sívaxandi samkeppni er um nýtingu þeirra samhliða því sem aukin áhersla er lögð á verndunarsjónarmið. Huga þarf í auknum mæli að því hvaða áhrif nýting geti haft á sjálfbærni svæðisins að teknu tilliti til umhverfis, s.s. á líffræðilega fjölbreytni, samfélagsins s.s á uppbyggingu innviða og loks efnahagslegs ávinnings. Nýtingarmöguleikar eru fjölbreyttir og snúast t.d. um matvælaframleiðslu, ferðaþjónustu, náttúru- og fuglaskoðun, og aðra afþreyingarstarfsemi. Aukin starfsemi á haf- og strandsvæðum hefur ýtt undir þörfina fyrir haf- og strandsvæðaskipulag til að styðja við stefnumótun á svæðunum.

Meistara- og doktorsnám í skipulagsfræðum 

Landbúnaðarháskólinn hefur boðið upp á meistaranám í skipulagsfræðum í meira en áratug og samhliða því hefur byggst upp þekking innan skólans.  Nýlega fékk LbhÍ leyfi frá Menntamálaráðuneytinu til að bjóða upp á doktorsnám í skipulagsfræði. Mikil þörf er á frekari rannsóknum á skipulagsmálum á Íslandi og er þetta rannsóknar verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætluninni liður í að byggja upp rannsóknir í skipulagsfræðum á Íslandi.

Skipulags- og hönnunardeild LbhÍ auglýsir eftir doktorsnema

Auglýst hefur verið laus til umsóknar staða doktorsnema við Skipulags- og hönnunardeild Landbúnaðarháskólans tengt verkefninu. Gert er ráð fyrir að umsækjendur hafi lokið MS gráðu í skipulagsfræði, geti unnið sjálfstætt og í hóp og hafi góð tök á ensku og íslensku, sjá nánar á vefsíðu skólans www.lbhi.is. Doktorsneminn mun vinna með hópi íslenskra og erlendra vísindamanna. Nemanum er ætlað, í samvinnu við leiðbeinendur og aðra samstarfsaðila, að vinna að undirbúningi, framkvæmd og úrvinnslu ákveðins hluta rannsóknarinnar. Einnig er mikilvægt að neminn þrói sínar eigin rannsóknarspurningar innan ramma þessarar rannsóknar.

Nánari upplýsingar

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, Sigríður Kristjánsdóttir og Christian Schultze leiða íslenska hluta verkefnisins og veita allar nánari upplýsingar. Þá má einnig finna upplýsingar á vef NPA

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image