Ný bók um fjárhunda, þjálfun þeirra og uppeldi er komin út

Út er komin bókin Border Collie Fjárhundar- leiðarvísir um þjálfun og uppeldi eftir Elísabetu Gunnarsdóttur frá Daðastöðum í Núpasveit við Öxarfjörð.

Í formála bókarinnar stendur:

„Þó áhugi manna á Border Collie fjárhundum hafi aukist á undanförnum árum og sífellt fleiri eigi hunda sér til gagns og gamans, er fjárhundamenning á Íslandi ung. Framboð á íslensku fræðslu­efni um Border Collie fjárhunda og tamningu þeirra hefur ekki aukist í takt við aukna útbreiðslu tegundarinnar. Margir þeir sem eiga slíka hunda gera sér ekki endilega grein fyrir hvaða væntingar þeir geta haft til hundsins eða hvaða vinna liggur að baki tömdum hundi. Allt of algengt er að bændur fari með hund í smalamennskur án þess að nokkur markviss tamning hafi átt sér stað og skammi svo hundinn þegar hann gegnir ekki. Það er því miður hlutskipti margra hunda sem vel gætu orðið ágætis fjárhundar, að sinna mjög takmörkuðum verkefnum eða vera jafnvel lokaðir inni þegar á að fást við fé. Útgáfa þessarar bókar mun vonandi stuðla að jákvæðri breytingu þar á.
Það er mikill ávinningur af því að eiga og ná tökum á góðum fjárhundi. Í bókinni er fjallað nokkuð ítarlega um tamningarferlið þó aldrei sé hægt að fjalla um allar mögulegar aðstæður sem geta komið upp í tamningunni. Þær leiðir sem eru kynntar í bókinni eru nokkuð hefðbundnar og ættu að vera flestum færar. Það er þó ekki svo að það sé einhver ein leið til að temja hund. Þó flestir þeir sem temja fjárhunda með góðum árangri beiti í grundvallaratriðum svipuðum aðferðum, þá hefur hver hundaþjálfari sitt lag á að gera hlutina og ekki síður við að segja frá þeim. Lesendur eru því hvattir til að leita sér þekkingar víðar eigi þeir þess kost. Síðan er það auðvitað æfingin sem skapar meistarann. Það er von okkar sem stöndum að þessari bók að á næstu árum glæðist áhugi á smalahundum, ræktun og tamningu þeirra enn frekar og er bókin að okkar mati mikilvægur liður í þeirri þróun. “
 

Háskóli Íslands
Elísabet með hundinn Dreka árið 2008 eftir
frumraun þeirra beggja í keppni

Höfundurinn, Elísabet Gunnarsdóttir, hefur verið viðloðandi fjárhunda síðan hún man eftir sér. Á síðustu árum hefur hún lagt metnað í að verða sér úti um aukna þekkingu og reynslu þegar kemur að tamningu Border Collie fjárhunda. Hún hefur lesið fjölda bóka, sótt námskeið hjá framúrskarandi þjálfurum og tamið eigin hunda sem og fyir aðra. Elísabet útskrifaðist sem hundaþjálfari frá Vores Hundecenter í Danmörku árið 2011 og hefur tekið þátt í fjölmörgum fjárhundakeppnum með góðum árangr. Þá hefur hún einnig haldið námskeið við góðan róm.

Bókin er til sölu í móttöku í Ásgarði á Hvanneyri og kostar 3.500 kr. Hægt er að panta bókina í síma 433-5000 eða á netfanginu This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image