Í tengslum við gerð nýrra markmiða um sjálfbæra þróun hjá Sameinuðu þjóðunum, skipulagði fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum sérstakar pallborðsumræður um eyðimerkurmyndun, landeyðingu og þurrka föstudaginn 28. febrúar í New York. Aðalfyrirlesari var forstöðumaður Landgræðsluskóla Háskóla SÞ á Íslandi, Hafdís Hanna Ægisdóttir.
Í erindi sínu kynnti Hafdís Hanna starf Landgræðsluskólans og fjallaði um mikilvægi þekkingaruppbyggingar ef ná á árangri í baráttunni gegn landeyðingu og endurheimt landgæða.
Ísland berst fyrir því með öðrum ríkjum að áhersla verði lögð á þessa baráttu í nýjum markmiðum um sjálfbæra þróun en Ísland hefur margt fram að færa í þessum málaflokki byggt á meira en 100 ára reynslu.
Á myndinni eru Gréta Gunnarsdóttir, fastafulltrúi ásamt Hafdísi Hönnu Ægisdóttur frá Landgræðsluskólanum, Melchiade Bukuru, frá skrifstofu eyðimerkursáttmálans, Javíer Molína, frá Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, Geoffrey Shaw, frá Alþjóða kjarnorkumálastofnun SÞ og Halit Çevik, sendiherra Tyrklands.