Ísbirnir, norðurljós og einstök náttúra - heldur vinsælar ljósmyndasýningar erlendis

Kerstin Langenberger er fædd og uppalin í Þýskalandi. Hún er mikill náttúruunnandi og segist hafa orðið ástfangin af stórbrotinni náttúru landsins þegar hún kom í fyrsta sinn hingað til lands fyrir um 15 árum. Hrífandi fegurð, ró, voldugir jöklar, hrikaleg fjöll og einmanna firðir er meðal þessa sem Kerstin nefnir þegar hún er beðin um að útskýra hvað það var við landslagið á norðurhveli jarðar sem hreif hana. Á ljósmyndasíðu Kerstinar á Facebook, Kerstin Langenberger Photography, stendur:

“Náttúran er líf mitt, ánægja, ævintýri. Ég vona að einn daginn muni ég finna leið til að gefa eitthvað til baka til náttúrunnar, allt sem hún hefur gefið mér, það sem ég er svo þakklát fyrir”

Það fann Kerstin svo sannarlega, því síðustu þrjú ár hafa Kerstin og vinur hennar, Olaf Krüger, staðið fyrir ljósmyndasýningum víða um þýskumælandi lönd Evrópu. Sýningin ber heitið Inseln des Nordes eða Eyjur Norðurhafs og samanstendur af ljósmyndum teknum víða á norðurheimskautið af Kerstin og Olaf. Uppselt hefur verið á nær allar sýningarnar, sem farið hafa fram í sölum sem taka 100-1800 manns í sæti. Kerstin segir að aðsóknin hafi farið fram úr björtustu vonum þeirra Olafs. Norðurlöndin eru mjög vinsæll áfangastaður þýskra ferðamanna. Þau hafi því búist við þónokkrum áhuga á að heyra sögur frá skandinavískum slóðum, en áttu alls ekki von á að fylla hvern fyrirlestrasalinn á fætur öðrum. Á þremur árum hafa 26.000 manns séð ljósmyndasýninguna þeirra, aðallega í Þýskalandi, en líka í Austurríki, Sviss og á Norður-Ítalíu (þar sem er þýsku er töluð). Olaf er atvinnuljósmyndari sem hefur sérhæft sig í ljósmyndasýningum og segir Kerstin að þetta form sýningar sé mjög skemmtilegt því oft liggur mikil vinna að baki hverrar ljósmyndar og skemmtilegar sögur sem að fylgja hverri mynd.

 “Eyjar Norðurhafs” er ljósmyndasýning sem er bæði skemmtileg og lærdómsrík. Ég stend á sviði ásamt vini mínum, Olaf, og v segjum frá því þegar við tókum tilteknar myndir eða sýnum samtöl við fólk sem við hittum í leiðöngrunum okkar. Viðfangsefnin eru fjölbreytt: við segjum til dæmis frá hella-hljómleikum og hvalveiði í Færeyjunum, frá tveggja vikna gönguferð um Hornstrandir og reynslu minni í gosinu í Eyjafjallajökli. Þá segi ég líka frá þeim tveimur árum sem ég bjó á Svalbarða, náminu mínu sem ég stundaði þar, “Arctic Nature Guide”, og segi frá ísbjörnunum þar. Olaf segir t.d. frá ferðalögum sínum á Austur-Grænlandi og fleira. Sýninging tekur um tvo klukkutíma, þetta er eins og að fara í leikhús. Eftir sýninguna getur fólk komið og spjallað við okkur ef það vill."

 

 

Háskóli Íslands
Velgengi sýninganna hafa farið fram úr björtustu vonum Kerstin og Olafs.

 

Kerstin starfar í dag sem leiðsögumaður, ljósmyndari og náttúruverndarmaður. Þau Olaf kynntust á Íslandi þegar hann var staddur hér á landi að undirbúa ljósmyndasýningu um Ísland á árunum 2004 til 2008. Það var svo nokkrum árum seinna sem þau ákváðu að vinna saman. Olaf langaði að ferðast til Grænlands og Færeyja og Kerstin langaði að vinna með sleðahundum og búa ár á Svalbarða. Kerstin átti jafnframt ótal myndir og áhugaverðar sögur frá árunum á Íslandi. Hugmyndin að sýningunni um "Eyjar Norðurhafs" kviknaði og hefur nú gengið í fimm ár.

"Það er hægt að segja að ég sé smituð af íslandsveirunni og heimskautabakteríunni. Það er fyrst og fremst náttúran sem heillar mig: stór, ósnortin svæði þar sem manneskjan er bara lítil og hefur ekkert að segja. Eldvirkni og ísheimar, hafið og illviðri, lífverurnar sem einhvern veginn tekst að standa allt af sér í þessum fjandsamlegum aðstæðum - þetta finnst mér alveg ótrúlega áhrifamikið.“

 

Háskóli Íslands
"Mig hefur dreymt um að sjá eldgos í mörg ár og þegar það gaus á Fimmvörðuhálsi, þá varð ég að koma til Íslands. Því miður hætti gosið tveimur dögum áður en ég kom, en daginn sem ég kom til landsins byrjaði Eyjafjallajökull að gjósa. Ég var í kringum eldfjallið allan tíman sem gosið stóð og vann að því loknu sem skálavörður í Þórsmörk þar sem ég sá um að hreinsa aðstöðuna eftir öskjufallið. Þetta var mikið meira en "bara" öskufall: gosið var ótrúlega myndrænt og ég náði mörgum góðum og einstökum myndum. Þetta var sannarlega draumur sem rættist þá!"

 

Eins og áður segir er Kerstin mikill áhugamaður um náttúruvernd. Hún hefur búið og starfað víðsvegar um heiminn og segir það hafa verið algjöra tilviljun að hún hafi endað á Íslandi í námi við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri. 

„Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá valdi ég Hvanneyri vegna þess að þetta var eini háskólinn á landinu þar sem ég gat lært eitthvað náttúrutengt án þess að þurfa að búa í bæ. Í frítímanum langaði mig að geta farið í gönguferðir og ljósmynda norðurljós án þess að þurfa að keyra bíl: ég sá ekki fram á að geta það í Reykjavík. Þess vegna skráði ég mig í B.Sc. námið “Landnýtingu” og var í síðasta hópnum sem útskrifaðist af þeirri braut áður en nafni námsins var breytt í “Náttúru- og umhverfisfræði”. Námið kenndi mér íslensku og margs konar áhugaverða þætti um íslenska náttúru og menningu. Þekkinguna nota ég ennþá í dag þegar ég vinn sem leiðsögumaður og náttúruverndarmaður. Að auki kynntist ég breskum sérfræðingum í gegnum B.Sc. verkefnið mitt sem seinna hjálpuðu mér að vinna á Nýja Sjálandi, og ennþá seinna fyrir grænfriðunga í Svíþjóð og Noregi.“

 

Háskóli Íslands
"Mér finnst norðurljós eru alveg ótrúlega heillandi. Hér sjást ljósin yfir Sildpollneset í Austnesfjorden, Austvågøya, Lofoten."

 

Þegar Kerstin er spurð um mikilvægi umhverfisverndar og sérstaklega verndun náttúrunnar á Norðurslóðum liggur ekki á svari.

"Á liðnum áratugum og öldum höfum við í Evrópu eyðilagt náttúrusvæði á stórum stíl og vegna þess getum við kannski metið fegurð „villtra“ náttúrusvæða betur en fólk sem að býr á þeim svæðum þar sem náttúrufegurð er orðin svo sjálfsögð, sem virðist vera á Íslandi. Ég trúi því að margir Íslendingar hafi ekki hugmynd um hversu sérstök náttúran er og hversu verðmæt hún er á heimsvísu! Ósnortin náttúrusvæði sem er eins fölbreytt og fallegt og t.d. hálendi Íslands, er einstakt á heimsvísu! Ég á góða vini á Íslandi og mér finnst flestir Íslendingar vera mjög opnir og skemmtilegir - þangað til að umræðan fer að snúast um peninga. Hvernig getur fólk verið svo stolt af menningar- og sagnaarfi sínum, en samt gert mjög lítið eða ekkert til að vernda náttúruna sína sem hefur mótað þjóðarsálina, haft áhrif á menningu landsins og haft megináhrif á listamennina ykkar? "

 

Háskóli Íslands
"Síðustu ár hef ég unnið sem leiðsögumaður og ljósmyndari á Svalbarda, og hluti af vinnu minni er að leita ísbjörnum, því þeir eru meginástaðan fyrir heimsóknum ferðamanna á svæðið. Mynd eins og þessi (hoppandi kvenkyns ísbjörn) tók ég  í öruggri fjarlægð um borð í bát. Það er örrugast fyrir alla því ísbirnir geta ekki klifrað upp og við þurfum ekki að standa vakt með byssu. Maður þarf að vera heppinn til að ná svona mynd af ísbirni  en þeir eru mismunandi styggir, sumir eru mjög forvitnir en aðrir er fljótir að láta sig hverfa þegar menn nálgast."

 

Kerstin finnst mikilvægt að Íslendingar fari að huga meira að umhverfisvernd og virkri þátttöku í baráttunni gegn loftslagsbreytingunum.

„Náttúru Íslands er mesta verðmæti ykkar þjóðar: þið þurfið að gæta vel að henni, því að hún skemmist auðveldlega. Fyrir mig er óskiljanlegt hvernig fólki getur dottið í huga að eyðileggja náttúruperlur eins og Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti, Þeistareyki eða Kárahnjúka fyrir erlenda stóriðju, sem að auki eykur framleiðslu gróðurhúsalofttegunda. Á sama tíma er ferðaþjónustan orðin stærsta atvinnugreinin á Íslandi sem gæti skilað mun meiri tekjum - ef hún myndi þróast á skipulagðan hátt, sem er því miður ekki að eiga sér stað. Landið er að breytast svakalegt hratt núna, bæði vegna stórframkvæmda og auknum umsvifum í ferðaþjónustu, það er eiginlega hrein klikkun að fylgjast með þessum breytingum.“

 

Háskóli Íslands
"Í Longyearbyen á Svalbarða búa um 2000 manns. Ég bjó þar í eitt ár á meðan ég var í leiðsögumannanámi og fannst mér langur veturinn (4 mánuðir án sólar) MJÖG spennandi og rosalega myndrænt!"

 

Ljósmyndasýning Eyjur Norðurhafs var sett upp sem fimm ára verkefni og er Kerstin farið að langa að leggja upp í næsta ævintýri. Þó síðasta sýningin verði á komandi vetri segir Kerstin að það geti verið að þau taki upp þráðinn aftur, góður árangur þessarar sýningar er sannarlega hvetjandi fyrir þau að búa til nýja ljósmyndasýningu.

“Viðtökurnar komu okkur svo skemmtilega á óvart. Skemmtilegst fannst mér að heyra frá gestum sýningarinnar hvað fólk fannst gott að heyra frá fyrstu hendi hvernig ástandið er í raun og veru. Okkur var og er mjög mikilvægt að sýna ekki bara fallegar myndir og jákvæðar fréttir, heldur líka hina hliðina, þá sem fólki langar ekki að sjá - bara eins og raunveruleikin er."

"Sýningargestum finnst spennandi að heyra frá hvalveiðum Færeyingar og Íslendinga, þau eru hissa á að lundastofninum gangi ekki vel á Suðurlandi og eru forvitin að fá að sjá og heyra hvernig við upplifum loftlagsbreytingar á þessum slóðum. Þetta eru bara smá dæmi um viðfangsefnin sem við segjum frá og með fjölbreyttum viðfangsefnum verður þessi tveggja tíma ljósmyndasýning ekki leiðinleg.“

Meðfylgjandi ljósmyndir tók Kerstin á ferðum sínum. Fleiri myndir er hægt að sjá á heimasíðunni Artic Dreams og hægt er að fylgjast með ferðum hennar á Facebook, Kerstin Langengerger Photography.  

 

 Háskóli Íslands
Kerstin Langenberger

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image