Alþjóðlega ISI-vísindaritið Icelandic Agricultural Sciences, árgangur 28/2015 er nú fullfrágengið á heimsíðu ritsins http://www.ias.is, en LbhÍ er einn af útgefendum þess.
Í ritinu eru 6 greinar og það er samtals 80 blaðsíður. Þetta er einnig fyrsti árgangurinn þar sem allar greinar hafa svokallað doi (digital object identifier) númer sem auðveldar vísindamönnum um allan heim að finna rafrænar útgáfur greina sem vitnað hefur verið í. Við þessa breytingu var IAS jafnframt breytt í hreint rafrit og er það ekki lengur prentað.
Seinasta greinin í árgangi 28/2015 er nýkomin á vefinn: Inoculation with arbuscular mycorrhizal fungi, fertilization and seed rates influence growth and development of lyme grass seedlings in two desert areas in Iceland eftir þá Úlf Óskarsson og Wolfgang Heyser. Greinin fjallar um áhrif svepprótasmits við ræktun á melgresi á tveimur sandsvæðum á Suðurlandi. Auk áhrifa svepprótasmitsins voru áhrif mismundi áburðar- og fræskammta einnig prófuð.
Það var athyglisvert að svepprótin jók vöxt á fyrsta ári en síðan dró úr jákvæðum áhrifum hennar og þau hurfu með tímanum og urðu jafnvel neikvæð. Hinsvegar jók áburður vöxt og sandsöfnun meira en aðrar meðferðir og enduráburðargjöf hafði meiri áhrif en stærð upphafsskammta af áburði. Hagkvæmast virtist að nota litla fræ- og áburðarskammta í upphafi en fylgja eftir með hóflegum áburði í nokkur ár eftir sáningu.
Þessi langtímarannsókn sem hér er greint frá er afar áhugaverð fyrir þá sem græða land með melgresi og nota það til að hefta sandfok og sýnir hversu nauðsynlegt það er að fylgja uppgræðslutilraunum og uppgræðslum eftir í mörg ár.
Þorsteinn Guðmundsson
ritstjóri IAS