Nemendur og kennarar á Umhverfisskipulagsbraut LbhÍ taka þátt í Hönnunarmars og hafa sett upp verk á besta stað borgarinnar á horni Lækjargötu og Bankastrætis, svokallaðri Bernhöftstorfu.
Verkið heitir „uppræting – innræting“ og varpar ljósi á hluti og form í umhverfinu sem við sjáum ekki. Það samanstendur af plastkúlum úr endurunnu plasti frá Loftorku og tré á hvolfi til að vísa í rótakerfi trjáa sem oft er ekki tekið tillit til í hönnun. Viðburðurinn verður opnaður formlega á morgun klukkan eitt og eru allir velkomnir að kíkja við.
Um verkið segir:
Form sem vanalega eru hulin sjónum eru dregin fram og öðlast líf. Í umhverfi okkar eru efni sem leynast í daglegu lífi. Rótarkerfi trjágróðurs er lífæð þeirra en ekki sýnileg og því oft ekki tekið tillit til þeirra við hönnun. Í hinu byggða umhverfi leynast loftfyllt form sem létta steypu en voru áður plasthlutir sem hafði verið fleygt. Með því að draga fram og gera sýnileg þessi form í hinu byggða og náttúrulega landslagi er mynduð veröld sem sýnir fegurð þess sem hulið er og vekur athygli á möguleikunum í hinu byggða og náttúrulega.
Hlutir nemendahópsins með kennaranum Helenu Guttormsdóttur