Tvær nýjar vísindagreinar um blöndun fóðurjurta

Út eru komnar tvær nýjar vísindagreinar, m.a. frá LbhÍ, sem sýna að tegundafjölbreytni eykur uppskeru og veitir góða vörn gegn illgresi í túnrækt. Þær má finna hér:

Weed suppression greatly increased by plant diversity in intensively managed grasslands: a continental-scale experiment

Major shifts in species’ relative abundance in grassland mixtures alongside positive effects of species diversity in yield: a continental-scale experiment

Hvernig getum við fengið meira fyrir minni aðföng í landbúnaði? Bent hefur verið á að ein leið til þess að auka sjálfbærni í landbúnaði sé að nýta blöndur nokkurra tegunda (tegundafjölbreytni). Greinarnar sýna fram á að blanda fjögurra fóðurjurta gefur umtalsvert meiri uppskeru en hreinar tegundir og hefur veitt mikla vörn gegn illgresi í túnrækt.

Lagðar voru út sambærilegar tilraunir á 31 tilraunastað um Evrópu þvera og endilanga. Í tilrauninni voru 15 gróðursamfélög; tvær tegundum grasa og fóðurbelgjurta var ýmist sáð hreinum eða í 11 blöndur með mismunandi hlutföll tegunda. Önnur tegundin úr hvorum flokki var fljót til en hin entist betur. Blöndurnar voru þannig úr garði gerðar að draga mátti úr tilbúnum nituráburði. Sami rannsóknahópur hafði áður sýnt fram á að fjölbreytni gæti aukið heyfeng og uppskeru niturs í öllum 11 blöndunum (Finn, J., et al. 2013. Ecosystem function enhanced by combining four functional types of plant species in intensively managed grassland mixtures: a 3-year continental-scale field experiment. Journal of Applied Ecology, 50, 365-375).

Fyrri greinin sýnir m.a. að blönduáhrifin eru háð hlutdeild fóðurbelgjurta í sverðinum árið á undan og sú síðari að blöndur eru öflugar við að halda niðri uppgresi í þessum sömu tilraunum.

Auka má uppskeru og draga má úr ásókn illgresis með því að velja saman tegundir sem vinna vel saman og geta leyst hvor aðra af hólmi í ræktunarkerfum sem eru að öðru leyti hönnuð til þess að draga úr notkun á tilbúnum nituráburði. Í þessari rannsókn komu fram skýr blönduáhrif þrátt fyrir fjölbreytta tegundasamsetningu og þau héldust út tilraunatímann. Niðurstöður þessar benda til þess að ekki þurfi að hafa of miklar áhyggjur af hlutfalli tegunda í blöndunni, hvorki við sáningu sé í framhaldinu, sem gerir alla meðhöndlun auðveldari. Rannsóknahópurinn ályktar að þessar skýru niðurstöður, bæði hvað varðar illgresisvörn og bættan heyfeng við minni áburðargjöf, skipti miklu máli til þess að auka sjálfbærni landbúnaðar, en ekki síður að þær eigi fullt erindi til bænda, eins og dæmin sanna víða í Evrópu.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image