Börnin höfðu nóg að gera í kennsluhúsi skrúðgarðyrkjubrautar.

Sumri fagnað í Garðyrkjuskóla LbhÍ

Image
Björgvin Örn Eggertsson og Guðríður Helgadóttir hjá LbhÍ ásamt Gunnþóri Guðfinnsyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, menntamálaráðherra
Image
Magnea ásamt samstarfaaðiliðum hjá ON og Björt Ólafsdóttur, umhverfisráðherra. Mynd fengin af on.is.
Image
Björgvin og Guðríður hjá LbhÍ ásamt Katrínu H. Árnadóttur og kristjáni Þór Júlíussyni.
Image
Markaðstorg í garðyrkjuskálanum.

Sumardaginn fyrsta var haldið opið hús á Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum en löng hefð er fyrir því að skólinn opni húsakynni sín á þessum degi enda gróður í gróðurhúsum löngu farinn að blómstra og dafna og tilvalið að leyfa landsmönnum að taka forskot á sumarsæluna.  Veðrið virtist ekki geta ákveðið sig hvernig því átti að hátta og var sólskin og snjókoma til skiptis yfir daginn. Engu að síður var fjöldi gesta mættur til að njóta fjölbreyttrar dagskrár frá morgni og fram á kvöld. Á markaðstorgi var hægt að kaupa íslenskt gæðagrænmeti sem og aðrar vörur frá garðyrkjutengdum aðilum.

Börnum var boðið upp á andlitsmálun og á útisvæðum skólans var hægt að fá alvöru skógarmannakaffi, ketilkaffi og kakó.  Fyrirtæki kynntu þjónustu sína og vörur og nóg var fyrir börnin að gera í kennslurými skrúðgarðyrkjubrautar. Hátíðardagskrá var í garðskálanum þar sem umhverfis- og garðyrkjuverðlaunin 2017 voru veitt.

Heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2017 hlaut Guðfinnur Jakobsson, garðyrkjufræðingur og frumkvöðull í lífrænni og lífelfdri ræktun. Guðfinnur gat ekki verið viðstaddur afhendinguna og tók sonur hans, Gunnþór Guðfinnsson við verðlaununum í hans stað úr hendi menntamálaráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni.

Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra afhenti svo umhverfisverðlaun Ölfuss en þau hlaut Magnea Magnúsdóttir, umhverfis- og landgræðslustjóri hjá Orku náttúrunnar, fyrir brautryðjendaverkefni við uppgræðslu á Hellisheiði.

Hvatningarverðlaun garðyrkjunnar hlaut Katrín H. Árnadóttir og fyrirtæki hennar, Ecospíra. Ecospíra framleiðir heilsufæði, byggt á spíruðum fræjum, baunum og korni.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar en þau hlaut Dvalar- og hjúkrunarheimilið Ás og tók Valdimar Ingi á móti verðlaununum.

Milli atriða í hátíðardagskránni var boðið upp tónlistaratriði.

Eru starfsmenn skólans sérlega ánægðir og þakklátir gestum fyrir komuna og vonast til að sjá sem flesta á Reykjum aftur að ári.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image