Slagorðasamkeppni Peatland LIFEline - Öllum opin

Verkefnið Peatland LIFEline leitar að slagorði sem fangar anda íslensks votlendis – endurheimt, líffræðilega fjölbreytni og tengingu við náttúruna.

Hvernig slagorð finnst þér lýsa þessu best?

Um verkefnið:

Peatland LIFEline er umfangsmikið verkefni sem vinnur að endurheimt íslensks votlendis og verndun mikilvægra vistkerfa og tegunda. Samstarfsaðilarnir eru sjö talsins: Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Fuglavernd, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin RSPB.

Markmiðið er að efla yfirsýn og þekkingu á íslensku láglendisvotlendi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og hlutverki í kolefnishringrásinni. Sérstök áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýravist, sem hefur mjög hátt verndargildi, auk fuglategundanna jaðrakans, stelks og lóuþræls, sem eru mikilvægir vísar um heilbrigði votlendis. Einnig verður sjónum beint að evrópska álnum sem er í útrýmingarhættu. 

Íslenskt votlendi er einstakt í Evrópu, meðal annars vegna samspils ungs berggrunns, eldvirkni, áfoks og eldgosasögu. Þéttleiki fuglalífs er mikill og nokkrar tegundir reiða sig að stórum hluta á þessi svæði. Verkefnið mun leggja grunn að betri yfirsýn yfir ástand votlendissvæða og helstu áskoranir við endurheimt þeirra, auk þess sem lögð er áhersla á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Um slagorðið:

  • Eftirminnilegt og skýrt
  • Endurspeglar votlendi með einhverjum hætti
  • Frumlegt og áheyrilegt
  • Á íslensku
  • Ekki lengra en 10 orð
  • Við hvetjum fólk til þess að skrifa frá hjartanu og gefa gervigreindinni frí

Hvernig tekurðu þátt?

  • Sendu inn 1–3 tillögur
  • Settu tillögu í athugasemd á samfélagsmiðlum samstarfsaðila Peatland LIFEline
  • Eða sendu á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Skilafrestur: 16. janúar 2026

Dómnefnd skipa: Bragi Valdimar Skúlason, hugmynda- og tónhöfundur, rithöfundarnir Andri Snær Magnason og Auður Jónsdóttir og Bára Huld Beck, kynningarstjóri hjá Fuglavernd. Dómnefnd mun meta tillögur út frá tengslum við verkefnið, einfaldleika og skýrleika – og hversu frumlegt og eftirminnilegt slagorðið er. Þetta er einstakt tækifæri til að taka þátt í mikilvægu verkefni er varðar endurheimt votlendis, líffræðilega fjölbreytni og verndun íslenskrar náttúru.

Endilega taktu þátt og hjálpaðu okkur að finna grípandi slagorð!

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image