Milljarður frá ESB í endurheimt votlendis á Íslandi

Peatland LIFEline.is verkefnið hafið!

Peatland LIFEline.is er nýtt og metnaðarfullt verkefni sem miðar að endurheimt votlendis og líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Samstarfsaðilar verkefnisins eru sjö talsins: Landbúnaðarháskóli Íslands, Land og skógur, Náttúrufræðistofnun, Fuglavernd, Hafrannsóknastofnun, Náttúruverndarstofnun og bresku fuglaverndarsamtökin Royal Society for the Protection of Birds. Verkefnið er leitt af Landbúnaðarháskóla Íslands.

Verkefnið er að mestu fjármagnað af LIFE-sjóðnum, sem er hluti af umhverfis- og loftslagsáætlun Evrópusambandsins. Verkefnið hófst formlega þann 1. september síðastliðinn og mun standa yfir í 66 mánuði, eða til loka febrúar 2031. Heildarkostnaður nemur rúmlega 8 milljónum evra, þar af leggur LIFE-sjóðurinn til 75% fjárhæðarinnar, eða um 6 milljónir evra (sem samsvarar um einum milljarði íslenskra króna). Peatland LIFEline.is er umfangsmesta verkefni sem Landbúnaðarháskólinn hefur stýrt til þessa.

Mun styrkja yfirsýn og auka þekkingu

Markmið verkefnisins Peatland LIFEline.is er að auka þekkingu og skilning á votlendi á láglendi á Íslandi, vistfræði þess, líffræðilegri fjölbreytni og búskap gróðurhúsalofttegunda. Áhersla er lögð á vistgerðina starungsmýravist sem hefur mjög hátt verndargildi og á þrjár fuglategundir sem eru tákn um heilbrigt votlendi en það eru tegundirnar jaðrakan, stelkur og lóuþræll.

Votlendi á Íslandi hefur um margt sérstöðu miðað við votlendi annars staðar í Evrópu, meðal annars vegna eldvirkni en þættir eins og ungur berggrunnur, áfok og eldgos hafa áhrif á eðli og eiginleika þeirra. Þéttleiki fugla er mikill og stofnar nokkurra tegunda fugla byggja afkomu sína að verulegu leyti á þessum svæðum. Vonir standa til að verkefnið muni styrkja yfirsýn og auka þekkingu á votlendissvæðum landsins, ástandi þeirra og helstu áskorunum við endurheimt. Auk þessa er mikil áhersla lögð á samfélagslega þátttöku og miðlun þekkingar.

Sendiherra Evrópusambandsins ávarpaði gesti

Fyrsti fundur verkefnisins var haldinn dagana 22.–24. september 2025 á Hvanneyri í Borgarfirði og mættu um 50 þátttakendur. Megintilgangur fundarins var að ræða skipulag og framtíðarplön og leggja línurnar fyrir þau verkefni sem framundan eru.

Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, tók þátt í setningardegi fundarins ásamt sendinefnd sinni: Samúel Ulfgard, aðstoðarforstöðumanni sendinefndarinnar, og starfsnemunum Þórhildi  Kristínardóttur og Þórhildi Søbech Davíðsdóttur. Sendiherrann flutti ávarp þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi Peatland LIFEline.is sem hluta af LIFE-áætlun Evrópusambandsins á sviði náttúru- og loftslagsmála.

Í heimsókninni hitti sendiherrann rektor Landbúnaðarháskólans, Ragnheiði I. Þórarinsdóttur og samstarfsfólk hennar. Hún tók einnig þátt í leiðsögn um Andakílsvæðið, sem er á Ramsar-skrá yfir votlendi í alþjóðlegum verndarflokki, undir leiðsögn fyrrverandi rektors Landbúnaðarháskólans, prófessors Björns Thorsteinssonar.

„Það liggur alveg gríðarleg vinna að baki þessum stóra áfanga en strax í umsóknarferlinu vorum við þess fullviss um að verkefnið myndi hljóta brautargengi vegna mikilvægi þess. Þetta er fyrsta LIFE-verkefnið sem Ísland fær úr náttúru- og lífbreytileikahluta sjóðsins og er vonandi bara upphafið að einhverri stórkostlegri vegferð fleiri slíkra verkefna. Samstarf allra aðila í verkefninu mun leiða af sér aukna fagþekkingu og getu innanlands til þess að efla okkar störf á þessu sviði – og miðað við þá frábæru stemningu sem var á fundinum er ekkert annað í stöðunni en að hefjast handa með sól í hjarta,“ segir Dr. Jóhanna Gísladóttir, lektor, sem er í forsvari fyrir Peatland LIFEline.is verkefnið hjá Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fyrir frekari upplýsingar um verkefnið er hægt að hafa samband við Jóhönnu í síma 848-4951 og gegnum tölvupóstfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image