Metfjöldi gesta á Reykjum á Sumardaginn fyrsta

Sumardaginn fyrsta, þann 21. apríl síðastliðinn, var haldið opið hús á Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum. Löng hefð er fyrir því að skólinn opni húsakynni sín á þessum degi enda gróður í gróðurhúsum löngu farinn að blómstra og dafna og tilvalið að leyfa landsmönnum að taka forskot á sumarsæluna.  Einmuna veðurblíða fagnaði gestum þennan dag og lagði fjöldi fólks leið sína í skólann og naut þar fjölbreyttrar dagskrár frá morgni og fram á kvöld.  Á markaðstorgi var hægt að kaupa íslenskt gæðagrænmeti og einnig var hægt að kaupa íslenskt kaffi sem ræktað var í hitabeltisgróðurhúsi skólans.  

Háskóli Íslands

Börnum var boðið upp á andlitsmálun og á útisvæðum skólans var hægt að fá alvöru skógarmannakaffi, ketilkaffi.  Fyrirtæki kynntu þjónustu sína og vörur og í kennslustofum sýndi listamaðurinn Hjalti Parelíus landslagsmyndir sínar.  Haldið var uppboð á gömlum garðyrkjubókum og vakti það töluverða lukku meðal gesta.  Klukkan 14 var hátíðardagskrá í garðskálanum þar sem forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson afhenti Garðyrkjuverðlaun LbhÍ árið 2016. 

Háskóli Íslands
Hjörtur Þorbjörnsson, forstöðumaður Grasagarðs Reykjavíkur, ásamt forseta Íslands

Verknámsstaður ársins var Grasagarður Reykjavíkur og heiðursverðlaun garðyrkjunnar 2016 hlaut Björgvin Steindórsson, skrúðgarðyrkjumeistari og forstöðumaður Lystigarðs Akureyrar. 

Háskóli Íslands
Björgvin Steindórsson gat ekki verið viðstaddur verðlaunaafhendinguna og tók dóttir hans við verðlaununum fyrir hans hönd
 

Forseti afhenti jafnframt umhverfisverðlaun Hveragerðisbæjar en þau hlaut fyrirtækið Fengur í Hveragerði.  Forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson afhenti svo umhverfisverðlaun Ölfuss en þau hlaut Landgræðslan að þessu sinni og veitti Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, verðlaununum viðtöku. 

Háskóli Íslands
Umhverfisverðlaun Ölfuss hlaut Landgræðslan og tók Sveinn Runólfsson, fráfarandi Landgræðslustjóri, við þeim úr hendi forsætisráðherra

Milli atriða í hátíðardagskránni var boðið upp á tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Kópavogs og var það Brynhildur Erla Finnbjörnsdóttir, nemandi á þverflautu og einn af verðlaunahöfum Nótunnar 2016, sem lék nokkur lög fyrir gesti.  Eru starfsmenn skólans sérlega ánægðir og þakklátir gestum fyrir komuna og vonast til að sjá sem flesta á Reykjum aftur að ári.

Háskóli Íslands
Fjöldi gesta heimsótti Reyki og höfðu börnin margt að skoða

Háskóli Íslands
Guðríður Helgadóttir, staðarhaldari á Reykjum, í pontu

 

Myndirnar tók Rúnar Ísak Björgvinsson.

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image