Þýðing og áhrif sögulegra kennileita frá fyrri hluta 20. aldar á skipulagsgerð og þróun hverfishluta í austurhluta Reykjavíkur.
Meistaravörnin fer fram mánudaginn 16. desember 2025 kl. 14:10 í Geitaskarði, Keldnaholti, Árleyni 22 112 Reykjavík og á Teams. Hér má nálgast hlekk á vörnina. Vörnin er öllum opin.
Leiðbeinendur:
Vignir Freyr Helgason, arkitekt og ráðgjafi á skipulags- og umhverfisdeild, Riksantikvaren. Doktorsnemi við borgarfræði- og landslagssvið, AHO og Astrid Lelarge- lektor við Lbhí.
Prófdómari
Pétur H. Ármansson, arkitekt og sviðstjóri hjá Minjastofnun Íslands
Ágrip
Ritgerðin fjallar um þýðingu og áhrif sögulegra kennileita frá fyrri hluta 20. aldar á skipulagsgerð og þróun byggðar í austurhluta Reykjavíkur. Markmiðið er að greina hvernig slík kennileiti hafa verið skilgreind, metin og nýtt við mótun skipulags og þar með þróun hverfishluta í austurhluta Reykjavíkur.
Rannsóknin byggir á fjölþættri aðferðafræði sem m.a. felur í sér tilviksrannsókn á afmörkuðu svæði í austurhluta Reykjavíkur og gagnrýnni greiningu á viðeigandi stefnuskjölum, lögum og leiðbeiningum, opinberum stefnuskjölum, og skipulagsáætlunum ásamt öðrum heimildum. Niðurstöður greininga sýna fram á að söguleg kennileiti hafa að takmörkuðu leyti haft áhrif á skipulagsgerð og mótun byggðar á þessu tiltekna svæði og því eru tækifæri til þess að nýta menningararfinn enn frekar en nú er gert.
Þá er greinilegt að mat á gildi kennileita og skilgreining hugtaksins er mismunandi og má greina að skortur er á aukinni samþættingu milli þeirra opinberu aðila sem hafa með verndum byggingararfsins að gera, annars vegar og hins vegar þeirra sem eru ábyrgir fyrir gerð skipulags og þróun byggðar. Greining opinberra stefnuskjala bendir þó til aukinnar áherslu stjórnvalda á verndun og nýtingu menningararfs í viðum skilningi hin síðari ár sem er í takt við alþjóðlega þróun og hugmyndir um nýtingu menningararfs við skipulagsgerð og mótun byggðar, en gera má betur og nýta á skilvirkari hátt þær upplýsingar sem fram koma í byggða- og húsakönnunum.
Rannsóknin bendir ennfremur til þess að þörf sé á heildstæðri og samþættri nálgun við mat á sögulegum kennileitum í byggð að því marki að efla staðaranda og samlegð ólíkra tímabila í þróun byggðarinnar sem er þá tengd sögu svæðis og einkennum þess. Slík nálgun getur stuðlað að sjálfbærri þróun, auknum gæðum í borgarumhverfi og betra jafnvægi milli verndar og uppbyggingar.





