Landbúnaðarháskóli Íslands tekinn við formennsku NOVA. Vinnufundur haldinn á Hvanneyri. Hópurinn fyrir framan aðalbyggingu LBHÍ

NOVA hópurinn stillti sér upp fyrir framan aðalbygginguna á Hvanneyri í upphafi fundar. Í forgrunni f.v. Christian Schultze og Ragnheiður I. Þórarinsdóttir ásamt fráfarandi formönnum Ylva Hilbur og Geir Löe.

Landbúnaðarháskóli Íslands tekinn við formennsku NOVA

Landbúnaðarháskóli Íslands hefur tekið við formennsku á NOVA University Network til næstu þriggja ára og tekur við af Landbúnaðarháskólanum í Svíþjóð (SLU) sem gegnt hefur formennsku á undanförnum árum.

 

NOVA háskólanetið er samstarf norrænna háskóla á sviði landbúnaðar, dýralækninga, skógfræði og skyldra greina með áherslu á sameiginleg námskeið fyrir doktorsnema. Sjö norrænir háskólar standa að samstarfinu, auk LbhÍ og SLU í Svíþjóð eru það Lífvísindaháskólinn í Noregi (NMBU), Háskólinn í Helsinki, Háskólinn í Austur-Finnlandi (UEF), Kaupmannahafnarháskóli og Háskólinn í Árósum.

 

Vel heppnaður vinnufundur á Hvanneyri

Stjórn NOVA, fulltrúar stjórnsýslu og nemenda frá samstarfsskólunum áttu tveggja daga vel heppnaðan fund á Hvanneyri í síðustu viku. Á fundinum tóku Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor Landbúnaðarháskóla Íslands og Christian Schultze rannsókna- og alþjóðafulltrúi formlega við keflinu af Ylva Hilbur og Geir Löe frá SLU. Ylva og Geir voru þökkuð fyrir þeirra góða starf á undanförnum árum, en NOVA samstarfið hefur styrkst mjög undir þeirra stjórn. Farið var yfir stefnu NOVA og áherslur til næstu ára.

Áfram verður lögð áhersla á samstarf um doktorsnámskeið og gæði námsins, fjölgun námskeiða og að námskeiðin séu auglýst með góðum fyrirvara. Þá var einnig rætt um matskerfið sem notað er til að fylgjast með gæðum NOVA námskeiða og hvernig megi bæta það enn frekar með aðstoð nemenda. Nemendur samstarfsháskólanna eru virkir þátttakendur í NOVA og fer Anna Mariager doktorsnemi við Landbúnaðarháskóla Íslands fyrir nemendahópi NOVA.

Frá vinnufundi hópsins á lokadegi

 

Öflugt samstarf á Norðurlöndunum um framhaldsnám

NOVA var stofnað árið 1995. Aðildarháskólarnir vinna á sviði landbúnaðar, dýravísinda, skógræktar, dýralækninga, matvæla, umhverfisvísinda, fiskeldis og skyldra lífvísindagreina. Háskólarnir eiga það sameiginlegt að stuðla að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, þróun í matvælaframleiðslu, heilsu- og velferðarvernd manna og dýra og að efla getu til nýtingar lands, vatns, plantna og dýra samkvæmt sjálfbærum meginreglum. NOVA er í góðu samstarfi við systursamtökin í baltnesku löndunum BOVA.

BOVA leggur megináherslu á samstarf á sviði meistaranáms og geta framhaldsnemendur innan NOVA háskólanna sótt námskeið á þeirra vegum. Upplýsingar um NOVA og þau námskeið sem eru á döfinni má finna á vefsíðunni: nova-university.org

 

Tengiliðir NOVA netsins hjá LbhÍ

Ragnheiður I. Þórarinsdóttir rektor

Christian Schultze, alþjóða- og rannsóknarfulltrúi 

Nánari upplýsingar veitir

Eva Hlín Alfreðsdóttir, deildarfulltrúi alþjóðamála

logo

Þekking á sviði sjálfbærrar nýtingar auðlinda, umhverfis, skipulags og matvælaframleiðslu.

LBHÍ

Hvanneyri - 311 Borgarbyggð
Sími 433-5000
lbhi@lbhi.is
Kt. 411204-3590
Rafrænir reikningar
Image

Starfsstöðvar

Flýtileiðir

Samfélagsmiðlar

Image
Image