Landgræðsluskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna fær reglulega ánægjulegar fregnir af fyrrum nemendum skólans. Nýlega bárust þær fréttir að tveir af fyrri nemum frá árinu 2013 hefðu fengið stöðuhækkanir og eru báðir orðnir yfirmenn hjá sínum stofnunum.
Mohamadou Habibou Gabou frá Níger tók við stöðu yfirmanns í umhverfisráðuneyti Níger í Dosso-héraði, einum af átta héruðum Níger. Azamat Isakov frá Kirgistan fékk stöðu yfirmanns 1. febrúar sl. á sínum vinnustað, CAMP Alatoo, sem er sjálfstæð stofnun sem vinnur að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda og bættari lífsgæðum fólks í fjallahéruðum Kirgistan og Tadjikistan.
Á heimasíðu Landgræðsluskólans (www.unulrt.is) er reglulega sagt frá gengi fyrrum nema skólans. Oftar en ekki hefur nemunum reitt mjög vel af að loknu námi og fengið m.a. aukna ábyrgð í starfi og betri tækifæri til að komast í frekara nám. Á heimasíðunni má einnig sjá skemmtileg YouTube viðtöl og umsagnir nokkurra fyrri nema Landgræðslukólans. Skólinn er líka á facebook á slóðinni: www.facebook.com/unulrt.
Meðfylgjandi mynd sýnir 2013 hópinn þar sem umræddir menn (í fréttinni) eru: Í efri röð 1. frá hægri er Mohamadou Habibou Gabou og fyrir neðan hann, í fremri röð, annar frá hægri er Azamat Isakov.