Landgræðsluskólinn tók á móti nýjum hópi nema fyrir skömmu en árlegt sex mánaða námskeið skólans er nýhafið. Í ár eru ellefu sérfræðingar við nám í skólanum, fimm konur og sex karlar. Þau koma frá Mongólíu, Kirgistan, Gana, Níger, Úganda og Malaví, auk Lesótó en þaðan koma nú í fyrsta skiptið sérfræðingar til að nema við skólann. Lesótó er lítið hálent land, umlukið Suður-Afríku, með um tvær milljónir íbúa. Þar er mikil landeyðing, meðal annars vegna beitar, sem hefur neikvæðar afleiðingar fyrir lífsafkomu fólks í landinu en stór hluti íbúa byggir afkomu sína á landbúnaði.
Nemar við Landgræðsluskólann hafa allir háskólapróf og starfa sem sérfræðingar hjá stofnunum sem vinna að landgræðslu, landvernd eða stjórnun og eftirliti landnýtingar í sínum heimalöndum. Markmið námsins er að byggja upp færni innan stofnanna sem nemarnir koma frá, svo þær séu betur í stakk búnar til að glíma við áskoranir sem tengjast nýtingu og endurheimt lands. Sex mánaða nám Landgræðsluskólans fer fram í húsnæði Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti og hjá Landgræðslunni í Gunnarsholti þar sem nemarnir dvelja í tvo mánuði í sumar.